fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
HelgarmatseðillMatur

Dýrindis helgarmatseðill af betri gerðinni sem steinliggur

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 6. maí 2022 15:00

Helena matgæðingur býður hér lesendum upp á drauma helgarmatseðilinn sinn sem á eftir að slá í gegn. MYND/VALLI.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af þessum dýrindis helgarmatseðli að þessu sinni á Helena Gunnarsdóttir matarbloggari og matgæðingur með meiru. Helena heldur úti síðunni Eldhúsperlur þar sem hún leyfir lesendum að njóta allra sinna uppáhalds uppskrifta.

„Ég fæ flestar mínar hugmyndir gegnum matarblogg og uppskriftabækur. Hvað varðar innblástur og það sem ég elda svona dags daglega má að mestu leyti rekja til mömmu sem er snilldarkokkur. Ég var svona krakki sem þurfti að slá á puttana á við eldhúsbekkinn til þess að þeir lentu ekki hreint og beint undir hnífunum þegar mamma var að malla eitthvað, sumsé afar viljug þegar kom að því að aðstoða í eldhúsinu. Í seinni tíð hef ég farið að skoða mikið heimasíður, matarblogg, matreiðslubækur og blöð ásamt því að horfa á matreiðsluþætti,“ segir Helena sem veit fátt skemmtilegra en töfra fram girnilegar kræsingar úr eldhúsinu.

Helena elskar ekkert meira en að borða ljúffengar kræsingar í faðmi fjölskyldunnar og góðra vina. Hér býður Helena lesendum upp á sinn drauma helgarmatseðil sem á svo sannarlega eftir að slá í gegn. „Ég valdi tvo aðalrétti, þrjá smárétti/forrétti og eina tertu með kaffinu. Allt réttir í miklu uppáhaldi,“ segir Helena og er sjálf orðin spennt fyrir að elda um helgina.

„Ekki láta langan innihaldslista og nokkur aukaskref hræða ykkur, hráefnin ættu öll að fást í næstu verslun og aðferðin er einföld en útkoman stórkostleg. Ekta matarborðs matur sem þið ættuð ekki að láta fram hjá ykkur fara.“

Nú er bara setja sig í stellingar og leyfa bragðlaukunum að njóta um helgina.

Byrjum á þessum partíréttum sem steinliggja á föstudagskvöldi og eru reyndar líka fullkomnir með Júróvisíón keppninni á þriðjudaginn.

„Glænýr saumaklúbbs- og partýréttur sem er ávanabindandi góður, gerði eiginlega allt vitlaust. Þið verðið að prófa þennan.“

Heit chilli ostaídýfa með fetaosti

Fyrir 8-10 sem partíréttur með öðru

1 stór askja hreinn rjómaostur (helst við stofuhita)

1 fetakubbur, mulinn niður

1 krukka sólþurrkaðir tómatar (um það bil 280 gr)

1 krukka grilluð paprika (um það bil 280 gr)

2-3 grænir chillipiprar, smátt saxaðir (minna ef þið viljið ekki sterkt)

1 lítill rauðlaukur, smátt saxaður

Handfylli fersk steinselja

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 200°C.
  2. Hellið olíunni af tómötunum og paprikunni og þerrið aðeins.
  3. Setjið allt innihaldið í matvinnsluvél og vinnið gróflega saman þannig að grænmetið er í litlum bitum og ostarnir vel blandaðir saman. Það er líka hægt að skera grænmetið niður með hníf og hræra saman við ostana.
  4. Setjið í eldfast mót og bakið í 15 mínútur.
  5. Berið fram með góðu snakki, brauði eða niðurskornu grænmeti.

Mozzarella snittur með bökuðum kúrbít, myntu og pikkluðum chilli 

4 stórar sneiðar súrdeigsbrauð (eða 8 minni)

1 hvítlauksrif

2 kúlur Mozzarella ostur

1 lítill kúrbítur, skorinn í þunnar sneiðar með ostaskera

4 msk. rifinn parmesan ostur

Ólífuolía

Salt og pipar

Fersk mynta, söxuð

Snögg pikklaður chilli

1-2 rauðir chillipiprar

3 msk. hvítvínsedik

2 msk. vatn

2 tsk. sykur

1 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

  1. Byrjið á að gera pikklaðan chilli. Skerið chillipiparinn í þunnar sneiðar og setjið í litla skál. Hrærið saman ediki, vatni, sykri og salti í litlum potti, hitið örstutt þar til sykurinn leysist upp og hellið svo yfir chillisneiðarnar. Látið standa á meðan þið undirbúið restina af réttinum.
  2. Hitið ofn í 170°C með blæstri. Leggið kúrbítssneiðarnar á bökunarpappír á ofnplötu, penslið með þunnu lagi af ólífuolíu og dreifið parmesan osti yfir, kryddið með salti og pipar. Bakið í 15 mínútur eða þar til þær hafa mýkst og osturinn brúnast.
  3. Ristið brauðsneiðarnar þar til stökkar. Skerið hvítlauksrif í tvennt og nuddið því yfir heitar brauðsneiðarnar, sáldrið yfir smá ólífuolíu og sjávarsalti.
  4. Rífið mozzarella kúlurnar jafnt yfir brauðsneiðarnar, með fingrunum þannig að þið fáið grófa og misstóra bita af ostinum. Krumpið saman tvær til þrjár sneiðar af kúrbít og setjið á hverja brauðsneið. Toppið með pikkluðum chilli, smá rifnum parmesan osti, nokkrum dropum af ólífuolíu ásamt ferskri saxaðri myntu.

„Hér er á ferðinni svona “slá í gegn” samsetning sem allir vilja uppskriftina af. Mjúkur osturinn, sæt og stökk vínber og ferskur vorlaukur einfaldlega smellpassar saman! Frábær smáréttur með köldum drykk eða á veisluborðið.“

Quesadilla með brie, vorlauk og vínberjum

Fyrir 4 sem smáréttur

4 meðalstórar hveiti tortillakökur

1 Dala Brie Nokkur rauð vínber, skorin í tvennt

2-3 vorlaukar, smátt saxaðir

2 msk. smjör

Aðferð:

  1. Skerið ostinn í sneiðar þvert á stykkið þannig að þið fáið langar og frekar þunnar sneiðar. Skerið vínberin í tvennt og vorlaukinn smátt.
  2. Raðið ostsneiðunum yfir tvær tortillakökur. Dreifið vínberjum jafnt yfir ásamt vel af vorlauk. Leggið aðra tortillaköku ofan á.
  3. Hitið pönnu á meðal-háum hita og bræðið 1 msk. af smjöri.
  4. Steikið fyllta tortillakökuna á í u.þ.b 1 mínútu á hvorri hlið eða þar til osturinn bráðnar og kökurnar eru stökkar og gullinbrúnar. Gott er að nota stóran spaða til að snúa kökunni við eða leggja disk ofan á og hvolfa pönnunni.
  5. Bræðið meira smjör og endurtakið með seinni kökuna. Skerið í sneiðar og berið fram volgt eða stofuheitt.

Á laugardagskvöldið er þetta lambalæri með indversku ívafi fullkominn réttur fyrir matarboðið eða lúxusdekur fyrir fjölskylduna.

Lambalæri shawarma með jógúrt tahini sósu og dúnmjúku flatbrauði

Fyrir 5-6

1,5 kg lambalæri

1 lítill laukur

2 hvítlauksrif

2 msk. olía

3 msk. grísk jógúrt

2 tsk. sambal oelek chillimauk

3 tsk. garam masala kryddblanda

2 tsk. cummin duft

2 tsk. svartur pipar

1 tsk. engiferduft

½ tsk. kanill

Væn klípa flögusalt

Þerrið kjötið og skerið í það nokkrar rifur með hníf og leggið í eldfast mót. Setjið allt innihaldið í maríneringuna í matvinnsluvél, blandara eða maukið saman með töfrasprota og hellið yfir kjötið. Leyfið að marínerast í að minnsta kosti 4-6 tíma. Best er að marínera kjötið daginn áður. Bakið lærið í ofni við 120°C gráður þar til kjarnhiti er um 60°C gráður, takið kjötið þá út og hækkið ofninn í 220°C gráður. Setjið lærið inn og leyfið að brúnast vel í nokkrar mínútur. Takið úr ofninum, látið hvíla í 20 mínútur og sneiðið svo þunnt niður.

Flatbrauð

2,5 dl Grísk jógúrt

2 dl volg mjólk

1 msk. olía

5 dl hveiti (og meira til að hnoða deigið)

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

1 tsk. sjávarsalt

Hrærið saman jógúrt, mjólk og olíu. Bætið þurrefnunum út í og blandið vel saman með sleif. Hnoðið svo vel saman með höndunum og mótið kúlu úr deiginu, bætið smá hveiti saman við ef deigið er mjög klístrað. Setjið í skál undir plastfilmu og leyfið að hvíla í 20 mínútur. Skiptið deiginu í fjóra jafna búta, fletjið hvern bút vel út í ílanga þunna köku. Hitið pönnu vel á háum hita og penslið pönnuna með þunnu lagi af olíu áður en hvert brauð er sett á. Steikið brauðið þar til loftbólur myndast, snúið þá við og steikið í ca. 20-30 sekúndur á hinni hliðinni. Setjið brauðin í stafla undir hreint viskastykki og geymið þannig þar til þau eru borin fram. Best er að baka brauðin rétt áður en á að borða.

Jógúrt tahini sósa með valhnetum og grillaðri papriku

4 msk. grísk jógúrt

4 msk. tahini sesammauk

1 krukka grilluð paprika (ekki vökvinn)

1 dl ristaðar valhnetur

2 msk. sítrónusafi

½ tsk. cummin

Chilliflögur eftir smekk

Salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og smakkið til með salti, pipar og sítrónusafa.

Meðlæti

Pikklaður rauðlaukur (sjá uppskrift)

Fersk mynta

Fetakubbur

Pikklaður rauðlaukur

2 rauðlaukar skornir í þunnar sneiðar

2 dl hvítvínsedik

1 dl vatn

1 tsk. sjávarsalt

2 tsk. sykur eða önnur sæta

Setjið rauðlaukinn í krukku eða skál. Hitið saman edik í potti, vatn, salt og sætu þar til hitnar vel og hellið yfir laukinn. Lokið og látið standa í ísskáp í 1-2 klukkustundir, geymist í ísskáp í tvær vikur.

 

„Svo einstaklega gómsætur en ótrúlega fljótlegur réttur. Ég er mögulega búin að gera þennan nokkrum sinnum á stuttum tíma en hann sló í gegn við fyrstu tilraun. Þessi er vel hæfur í fínasta matarboð, annars steinliggur hann á sunnudags- eða mánudagskvöldi þar sem við erum jú öll að reyna að borða fisk aðeins oftar.“

Parmaskinku vafðir þorskhnakkar með capers og hvítvínsrjómasósu og blómkálsmús

Fyrir 3-4

800 g þorskhnakkar

1 bréf parmaskinka (u.þ.b. sex sneiðar)

2 dl hvítvín (líka hægt að nota vatn og smá sítrónusafa)

Tvær dósir 18% sýrður rjómi

1 væn msk. Dijon sinnep

1 lítil krukka capers

Salt og pipar og smjör til steikingar

Aðferð:

  1. Byrjið á að skera þorskhnakkana í um það bil sex jafna bita og vefjið sneið af parmaskinku utan um hvern bita.
  2. Hitið pönnu og bræðið dálítið smjör. Steikið bitana vel á báðum hliðum og færið upp á disk.
  3. Hellið hvítvíninu á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Setjið sinnep og capers ásamt sýrðum rjóma saman við og látið aðeins malla við vægan hita. Smakkið til með salti og pipar.
  4. Leggið þorskbitana út í sósuna og klárið að elda þá í gegn. Berið fram t.d. með blómkálsmús eða grænu salati.

Blómkálsmús

1 stórt höfuð blómkál, skorið niður og stilkurinn fjarlægður

1 msk. smjör

2 msk. hreinn rjómaostur

Salt og pipar

Aðferð:

  1. Setjið blómkálið í pott og hellið vatni yfir. Hleypið suðunni upp og sjóðið þar til eldað í gegn og mjúkt eða í um 10-15 mínútur.
  2. Hellið þá vatninu af og látið blómkálið standa í opnum pottinum á hellu með vægum hita í 5 mínútur eða þannig að allt vatn gufar alveg upp.
  3. Setjið smjörið og rjómaostinn út í og maukið blómkálið með töfrasprota. Kryddið vel með salti og pipar og smakkið til.

 

„Einu sinni hélt ég að rúllutertubakstur væri óttalegt maus og vesen og ekkert á allra færi að framkvæma. Það var mikill misskilningur. Þetta er meira að segja bara frekar einfalt og fljótlegt. Ég þarf svo varla að selja ykkur samsetninguna á rjóma, banana og súkkulaði, draumkennt ef þið spyrjið mig. Þetta hreinlega steinliggur og ég vona að þið prófið öll að gera rúllutertu við fyrsta tækifæri.“

 

Bananarúlluterta með súkkulaðihjúp

Rúlluterta

4 stór egg

150 g sykur

50 g hveiti

4 msk. kakó

1 tsk. lyftiduft

¼ tsk. salt

Súkkulaðihjúpur

1 dl. rjómi

150 g súkkulaði

Fylling

4 dl. rjómi

2 msk. flórsykur

1 tsk. vanilluextrakt

2 bananar, stappaðir

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Þekið ca. 30×40 cm form að innan með bökunarpappír. Þeytið mjög vel saman egg og sykur eða þar til blandan er létt og ljós, þeytið í a.m.k. fimm mínútur á hæsta styrk.
  2. Sigtið hveitið, kakóið, lyftiduftið og saltið saman við blönduna og blandið varlega saman við. Gætið þess að missa ekki loftið úr eggjablöndunni. Hellið deiginu í bökunarform, sléttið vel úr með sleikju og bakið í 8-10 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í miðjan botninn kemur hreinn upp.
  3. Leggið bökunarpappír, aðeins stærri en kökubotninn, ofan á viskastykki á borði. Stráið 1 msk af sykri jafnt yfir pappírinn. Hvolfið kökubotninum ofan á sykraða bökunarpappírinn um leið og þið takið hann úr ofninum og losið bökunarpappírinn sem var undir kökubotninum. Rúllið botninum upp með viskastykkinu og látið kólna í 30 mínútur eða á meðan þið gerið hjúpinn og fyllinguna. Athugið að rúlla botninum upp á styttri hliðinni.
  4. Gerið súkkulaðihjúpinn. Saxið súkkulaðið smátt. Hitið rjómann að suðu (ekki láta sjóða) og takið af hitanum. Hellið súkkulaðinu út í pottinn og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað og glansandi. Hellið í skál og látið kólna þannig að hjúpurinn þykkni aðeins. Líka hægt að setja í ísskáp í upp undir 30 mínútur.
  5. Gerið fyllinguna. Þeytið rjómann ásamt flórsykri og vanillu þar til stífþeyttur. Blandið vel stöppuðum banana saman við. Takið rúllutertubotninn varlega í sundur. Smyrjið fyllingunni jafnt yfir botninn og rúllið upp aftur. Setjið á fat eða tertudisk og dreifið súkkulaðihjúpnum jafnt yfir.

Njótið vel og gleðilega helgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
29.08.2024

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins

Simmi Vill mætir með nýjung á Kjúklingafestival ársins
Matur
03.08.2024

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?

Hvað kostar 12″ pizzan víðs vegar um landið?
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
18.06.2024

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum

Bjóða upp á hamborgara frá ýmsum heimshornum
Matur
18.03.2024

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum
Matur
15.03.2024

Kjúklingur í rjómalagaðri sósu

Kjúklingur í rjómalagaðri sósu
Matur
27.12.2023

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram
KynningMatur
22.12.2023

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb