Heiðurinn af helgarmatseðlinum á matarvef DV.is þessa helgina á Hjördís Dögg Grímarsdóttir sem heldur úti hinni vinsælu heimasíðu mömmur.is og fésbókarsíðunni @mommur.is. Hjördís er þekkt fyrir að vera með veislutengt efni eins og uppskriftir og skreytingar og einnig fyrir einfaldar og ljúffengar uppskriftir sem allir ráða við. Hún er í hópi okkar vinsælu matar- og sælkerabloggurum. Hjördís nýtur sín í eldhúsinu og hefur mikla ástríðu fyrir því að matreiða og baka dýrindis kræsingar. Einnig finnst henni ómissandi eiga skemmtilegar samverustundir við matarborðið með sínum nánustu og vinum. Og þegar veislu góða veislu skal gjöra er Hjördís í essinu sínu og veit fátt skemmtilegra en að töfra fram fallega skreyttar kræsingar sem gleðja bæði auga og munn.
Þegar við leituðum til Hjördísar með helgarmatseðilinn tók hún erindinu fagnandi og var ekki lengi að finna til uppskriftir af sælkerakræsingum sem hafa slegið í gegn hjá henni með hækkandi sól. Hjördís gefur lesendum uppskriftir af forrétti, tveimur aðalréttum, einum eftirrétt sem eiga vel við í byrjun sumars.
Í forrétt mælir Hjördís með sælkera tortillarúllum með sumarlegu ívafi sem eru sáraeinfalt er að útbúa og passa einstaklega vel með freyðandi búbblum.
Forréttur
Tortillarúllur með sumarlegu ívafi
6 stk. tortillakökur
Fylling:
½ dós rjómaostur
4 msk. sýrður rjómi
1 dl rifinn mexíkóostur með chilli
2 tsk. hunang
1 tsk. ítölsk hvítlauksblanda
1 stk. paprika – smátt skorin
1 tsk. rauðlaukur – smátt skorinn
1-2 msk. saxaðar döðlur
8 stk. skinkusneiðar -smátt skornar
Aðferð:
Skerið lauk, papriku og skinku í smáa bita.
Setjið í skál ásamt restinni af hráefnunum.
Hrærið vel og smyrjið á hverja tortillaköku, rúllið og skerið í litla bita.
Það kemur vel út að setja upprúllaða tortillaköku ásamt fyllingunni í plastfilmu og geyma í ísskápnum þar til á að bjóða uppá.
Aðalréttir
Með hækkandi sól færist eldamennskan oftar en ekki út á pall og grillið er notað í meira mæli. Það jafnast fátt við gómsæt grilluð kjúklingaspjót. Hér er á ferðinni uppskrift sem slær í gegn í grillveislunni.
Syndsamlega ljúffeng barbeque kjúklingaspjót
Marínering
1 dl olía
½ dl sojasósa
2 dl Balsamik-edik fíkjusósa frá Stone Wall
1-2 dl Barbeque með hunangi
4 stk. hvítlauksgeirar
2 tsk. ítölsk hvítlauksblanda
1 tsk. malton salt
Aðferð:
Merjið hvítlaukinn og setjið allt hráefnið í skál og hrærið vel saman.
Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega stórar ræmur, blandið maríneringunni saman við og látið marínerast í 2 klukkustundir.
Steikið kjúklingaspjótin á grilli þar til kjötið er steikt í gegn. Passið að elda ekki of lengi.
Stingið grillpinna í hvern bita.
Berið fram með hvítlaukssósu, salati, hvítlauksbrauði og Piknik frönskum.
Hér er svo uppskrift af hvítlauksbrauði. Þetta brauð er í miklu uppáhaldi í fjölskyldu Hjördísar. Hægt að útfæra á marga vegu en grillbrauð slær alltaf í gegn.
Hvítlauksbrauð – steinliggur grillað
300 ml volgt vatn
10 g þurrger
2 tsk. sykur
2 tsk. salt
2 msk. olía
550 g hveiti
Hvítlauksolía
1 dl ólífuolía
4-5 hvítlauksgeirar
2 tsk. ítölsk hvítlauksblanda
1 tsk. malton salt
Nokkur chillifræ
1 tsk. sítrónusafi
Aðferð:
Mjög gott að byrja á því að útbúa hvítlauksolíuna.
Blandið öllum hráefnum olíunnar í skál, hrærið vel og látið standa meðan meðan deigið er búið til.
Til að búa til grillbrauðin setjið þið þurrger og sykur út í volgt vatn og hrærið vel með pískara. Látið standa í nokkrar mínútur.
Blandið olíu og salti saman við ásamt hveitinu.
Hnoðið deigið í 5 mínútur og látið lyfta sér í 40 -60 mínútur.
Mótið deigið í litla hringi, pressið á hringina með fingrunum og penslið hvítlauksolíu yfir.
Setjið á heitt grill og bakið í um það bil 10 mínútur. Passið að brauðið brenni ekki undir.
Einnig hægt að baka í ofni við 200°C hita í um 12 mínútur.
Kjötbollur henta hvenær sem er og hægt að hafa hversdags eða gera þær aðeins fínni fyrir helgarmatinn. Leyfið ykkur að nostra við bollurnar, bæta uppáhaldskryddinu ykkar saman við og skreyta með dásamlegum parmesanosti. Hér er á ferðinni grunnur að ljúffengum kjötbollum sem hægt er að breyta og bæta eins og hentar hverjum og einum.
Sælkerakjötbollur með spaghetti og ljúffengri sósu
500 g nautahakk
500 g svínahakk
1 stk. rauðlaukur
3 stk. hvítlauksgeirar
2 tsk. malton salt
1 tsk. hvítlauksblanda frá Besta kryddið
2 dl rifinn mexíkóostur með chilli
2 msk. ólífuolía
2 stk. egg
1 tsk. paprikukrydd
2 msk. Maizin mjöl
2 tsk. hunang
2 tsk. oreganó
3 msk. tómatpúrra
Brauðmylsna, um það bil sjö brauðsneiðar eða 1-2 dl af brauðraspi
Kjötbollusósa
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 msk. chilli tómatsósa
2 tsk. hunang
1-2 msk. oreganó
2 tsk. hvítlauksgeirar
Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Skerið rauðlauk og hvítlauk smátt og blandið saman við hakkið.
Blandið restinni af hráefnunum vel saman við.
Mótið litlar bollur og steikið upp úr olíu eða smjöri í nokkrar mínútur.
Setjið bollurnar í eldfast mót og haldið áfram að hita í ofni við 180°C gráður í um það bil 20 mínútur.
Sósan er búin til með því að blanda öllu saman, hita og mauka síðan með töfrasprota.
Kjötbollurnar eru bornar fram með spaghetti og ljúffengri sósu. Mjög gott að sáldra parmesanosti yfir eftir smekk.
Með hækkandi sól er ótrúlega ljúft að vera með krúttlega eftirrétti sem eru laufléttir og skemmtilegir í framsetningu. Hér eru á ferðinni undursamlegar litlar pavlovur sem þið eigið eftir að elska.
Eftirréttur
Litlar pavlovur
5 stk. eggjahvítur
270 g sykur
½ tsk. cream of tartar
Matarlitur – má sleppa
Fylling:
½ l rjómi – þeyttur
100 g rjómasúkkulaði – rifið
1 askja jarðarber smátt skorin
Aðferð:
Þeytið eggjahvítur og þegar þær byrja að freyða þá blandið þið cream of tartar saman við.
Bætið sykrinum út í smátt og smátt og stífþeytið.
Blandið matarlit út í varlega ef þið ætlið að lita pavlovurnar
Setjið blönduna í sprautupoka með 1M sprautustúti.
Sprautið og búið til litlar pavlovur.
Bakið við 130°C hita í 1 ½ klukkustund
Fyllið með þeyttum rjóma og rjómasúkkulaði og skreytið með jarðarberi.
Hægt að skreyta um það bil tveimur klukkustundum áður en þær eru bornar fram. Einnig hægt að geyma í kæli yfir nótt.
Allt hráefnið er hægt að fá í verslunum Bónus.
Njótið vel.