fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Matur

Helgarmatseðillinn í boði Berglindar Hreiðars matar-og kökubloggara

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 11. mars 2022 11:57

Berglind Hreiðars ástríðukokkur og matarbloggari býður upp á helgarmatseðil DV að þessu sinni sem hinn dýrðlegasti. MYND ERNIR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af helgarmatseðlinum á matarvef DV.is þessa helgina á okkar ástsæla Berglind Hreiðars matar- og kökubloggari með meiru en hún heldur úti bloggsíðunni Gotterí og gersemar auk þess að hún er með Instagramsíðuna @gotteriogersemar. Berglind hefur notið mikilla vinsælda fyrir bloggið sitt og er þekkt fyrir glæsilegar köku- og þemaveislur sínar sem gleðja bæði auga og munn. Auk þess sem hún hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur og núna síðast bakstursbókina Börnin baka sem hún gaf út með dóttur sinni, Elínu Heiðu, sem hefur líka ástríðu fyrir bakstri enda ekki langt að sækja hæfileikana. Þegar við leituðum til Berglindar með helgarmatseðilinn var það auðsótt og sendi Berglind okkur þennan girnilega helgarmatseðil sem byrjar með pitsaveislu á föstudagskvöldi eins og þær gerast bestar.

Í kvöldmatinn föstudagskvöld mælir Berglind með þessari gómsætu og matarmiklu pitsu, Ein með öllu og Oreo S´mores sjeik í eftirrétt. Berglind segir að föstudagskvöld séu oft pitsakvöld hjá sér og það njóti ávallt vinsælda. Gaman sé að leika sér með áleggið og búa til matarmikla og gómsætar pitsur úr öllu því sem hverjum og einum þykir best:

https://www.gotteri.is/2020/10/01/ein-med-ollu/ 

Ein með öllu

Pitsabotnar

5 litlar pizzur (um 10-12“)

660 g af Polselli 00 hveiti

400 ml volgt vatn

2 tsk. salt

1 pk. þurrger (11,8 g)

virgin ólífuolía

Setjið þurrefnin í hrærivélarskál og festið krókinn á (þetta deig má einnig hnoða saman í höndunum en þá þarf að gera stóra holu í þurrefnahrúguna og blanda vatni og olíu saman við í nokkrum skömmtum). Blandið þurrefnunum saman og hellið vatni og ólífuolíu saman við og hnoðið í nokkrar mínútur. Penslið stóra skál með matarolíu, veltið deigkúlunni upp úr olíunni, plastið skálina og leyfið að hefast í um 1 ½ – 2 klukkustundir. Skiptið niður í 5 hluta, setjið álegg á hvern botn og bakið við 220°C í um 13-15 mínútur. Athugið að hægt er að gera deigið deginum áður, skipta niður í 5 kúlur, hjúpa hverja með olíu og setja hverja og eina í sér filmuplast/zip lock poka og geyma í kæli. Mikilvægt er síðan að leyfa deiginu að ná stofuhita áður en það er teygt út og álegg sett á.

Álegg – magn eftir smekk hvers og eins

Pitsaasósa

Rifinn ostur

Steikt nautahakk

Stökkt beikon (niðurskorið)

Pepperoni

Græn paprika

Rauðlaukur

Sveppir

Piparostur

Rjómaostur

Ferskt timian

Í eftirrétt mælir Berglind með þessum dýrðlega sjeik sem minnir á trylltan bragðaref að bestu gerð. Berglind lofar líkar að sjeikinn munu hitta beint í mark enda sé hann guðdómlega góður og toppi föstudagsmáltíðina með stæl:

https://www.gotteri.is/2021/03/17/oreo-smores-sjeik/

Oreo „S‘mores“ sjeik

Fyrir þrjú glös

„S‘mores kantur“

4 stk. Lu Digestive kex

Súkkulaðisósa

Setjið kexið í blandarann þar til það verður duftkennt, hellið í skál. Hellið súkkulaðisósu í aðra skál. Dýfið kantinum á glasinu fyrst í súkkulaðisósuna og því næst í hafrakexið og reynið að þekja vel með kexi. Hellið smá súkkulaðisósu innan á glasið og leyfið að leka niður á meðan þið útbúið sjeikinn.

Oreosjeik

6 Oreokökur

1 l vanilluís

300 ml nýmjólk

5 msk. Súkkulaðisósa

Setjið Oreokex í blandarann og myljið niður þar til duftkennt. Bætið ísnum í skálina ásamt mjólk og súkkulaðisósu. Blandið saman þar til kekkjalaust. Skiptið niður í glösin og setjið toppinn á.

Toppur

Þeyttur rjómi eftir smekk

Mini Oreokex

Mini sykurpúðar

Súkkulaðisósa

Sprautið vel af þeyttum rjóma ofan á sjeikinn og setjið smá súkkulaðisósu yfir. Raðið síðan kexi og sykurpúðum ofan á rjómann.

 

Berglind mælir með mini skyrskálum og eggjasalati á olíupensluðu hrökkbrauði fyrri hluta dags og í kvöldverð ljúffengum pastarétt sem gleður bragðlaukana, spaghetti carbonara:

https://www.gotteri.is/2021/09/28/mini-skyrskalar/

Mini“ skyrskálar

Fyrir 6-8 glös

Neðsta lag

500 g vanilluskyr

Skiptið skyrinu jafnt í botninn á glösunum.

Millilag

200 g jarðarberjaskyr

200 ml möndlumjólk

400 g frosnir bananar

300 g frosin jarðarber

80 g Til hamingju saxaðar döðlur

Setjið allt í blandarann og maukið þar til þykkt og slétt krap hefur myndast. Gott er að stoppa nokkrum sinnum og skafa niður á milli og halda síðan áfram að mauka. Hellið yfir vanilluskyrið og skiptið jafnt á milli glasanna og setjið toppinn yfir að lokum.

Toppur

Til hamingju súkkulaðihúðuð jarðarber (söxuð niður)

Til hamingju granóla

Til hamingju kókosflögur

Niðurskorinn banani

Niðurskorin jarðarber

Hnetusmjör

https://www.gotteri.is/2021/01/14/eggjasalat-og-oliupenslad-hrokkbraud/

Eggjasalat og olíupenslað hrökkbrauð

Eggjasalat með beikoni

6 harðsoðin egg

8 beikonsneiðar (stökkar og saxaðar)

½ rauðlaukur (smátt saxaður)

130 g majónes

Aromat eftir smekk

Skerið niður eggin og blandið saman við beikonið og rauðlaukinn. Hrærið majónesinu saman við og kryddið til eftir smekk.

Olíupenslað hrökkbrauð

1 pakki Finn Crisp Original hrökkbrauð

120 g ólífuolía

20 g soya sósa

1 tsk. hvítlauksduft

1 tsk. rósmarín

1 tsk. oregano

½ tsk. pipar

Hitið ofninn í 200°C. Blandið öllum kryddum og soya sósu saman við matarolíuna. Mér finnst best að setja skál ofan á vigt og hella olíu beint í hana og vigta þannig ásamt soya sósunni. Hræra síðan öllum kryddunum saman við. Penslið hrökkbrauðið á báðum hliðum og raðið því á bökunarpappír í ofnskúffu. Gott er að hræra alltaf reglulega í olíunni á milli því soya sósan á það til að setjast annars á botninn. Ristið í 4-5 mínútur eða þar til kexið dökknar aðeins og olían fer að búbbla. Leyfið kexinu að kólna aftur niður áður en þið berið það fram með eggjasalatinu.

https://www.gotteri.is/2022/02/11/spaghetti-carbonara/

Spaghetti Carbonara

Fyrir 4

400 g spaghetti

200 g beikon

50 g smjör

3 hvítlauksrif

3 egg

40 g rifinn parmesan ostur + topping

40 g rifinn pecorino ostur + topping

Salt og pipar eftir smekk

Sjóðið spaghetti í vel söltu vatni þar til „al dente“ (10-12 mínútur). Á meðan má klippa niður beikonið, merja hvítlauksrifin heil og steikja hvorutveggja upp úr smjörinu við meðalháan hita þar til beikonið verður stökkt. Rífið einnig niður ostana og pískið eggin í sér skál og piprið eftir smekk, geymið. Þegar spaghetti er tilbúið má veiða það upp úr pottinum og setja beint á pönnuna með beikoninu (fjarlægið fyrst hvítlauksrifin) og velta því vel upp úr beikonfeitinni. Takið næst af hellunni (eða hafið áfram á henni á lágum hita), setjið ostinn og pískuð eggin á pönnuna og veltið öllu um í 1-2 mínútur eða þar til rjómakennd sósa hefur myndast. Ef ykkur finnst sósan of þurr má setja smá pastavatn saman við. Varist einnig að hafa spaghetti á of heitri hellu þegar þið hellið eggjunum og ostinum saman við því þá eldast eggin of hratt og kekkjast/verða að eggjahræru en ekki sósu. Berið strax fram með rifnum parmesan/pecorino osti, salti og pipar.

Með sunnudagskaffinu mælir Berglind með kaffiboost og himneskum kanilsnúðum sem bráðna í munni. Í kvöldverð mælir hún með syndsamlega ljúffengu hægelduðu nautakjöt í rauðvínssósu borðið fram með ekta kartöflumús. Þetta er hin fullkomna máltíð til loka helgarmatarveislunni með fjölskyldunni við hugguleg heit.

https://www.gotteri.is/2022/01/16/kaffiboost/

Kaffiboost

Fyrir 2-3 glös (eftir stærð)

250 g vanilluskyr

200 ml vanillumjólk

1 banani

1 espresso

30 g Til hamingju döðlur

60 g Bio Today múslí með kakó

1 msk. Bio Today möndlu og kasjúhnetusmjör

2 tsk. Bio Today „No Bee“ hunang

1 lúka af klökum

Allt sett saman í blandara og blandað þar til kekkjalaust.

https://www.gotteri.is/2014/01/15/himneskir-kanelsnudar/

Himneskir kanilsnúðar

1 pk þurrger

180 ml nýmjólk

50 g sykur

120 ml volgt vatn (+ 1 msk sykur)

1 tsk. vanilludropar

1 egg

1 tsk. salt

60 g brætt smjör

520 g hveiti

Setjið volgt vatn og 1 matskeið sykur í skál, hrærið þurrgerinu saman við og látið standa í um 5 mínútur eða þar til þurrgerið fer að „bólgna“ aðeins upp. Setjið „krókinn“ á hrærivélarskálina og hrærið saman egg, mjólk, salt, sykur og bráðið smjör á lágum hraða þar til vel blandað. Bætið við gerblöndunni og vanilludropunum og blandið saman. Því næst er helmingnum af hveitinu bætt útí, hnoðað, skafið niður og restinni af deiginu bætt við og hnoðað aftur. Þegar deigið hefur blandast vel aukið þá hraðann á hrærivélinni upp í miðlungshraða og hnoðið deigið þannig í um 5 mínútur. Takið úr hrærivélarskálinni og „klappið“ saman í góða kúlu (ef það er of klístrað má bæta örlitlu hveiti saman við).

Penslið skál með matarolíu, setjið deigið þar í, snúið einu sinni svo deigið hjúpist með olíunni, setjið plast yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 2 klukkustundir eða þar til deigið hefur um það bil tvöfaldað stærð sína. Hellið deiginu úr skálinni á vel hveitistráðan flöt og stráið smá hveiti yfir deigið sjálft. Þrýstið deiginu með fingrunum til beggja hliða þar til það hefur myndað rétthyrndan flöt sem er um það bil 30 x 40 cm.

Fylling

80 g smjör við stofuhita

70 g sykur

150 g púðursykur

1 ½ msk. kanill

50 g brætt smjör (til að pensla á í lokin þegar snúðarnir hafa hefast að nýju)

Smyrjið smjörinu (sem er við stofuhita) jafnt yfir deigið. Blandið sykri, púðursykri og kanil saman og stráið jafnt yfir allt deigið. Rúllið þétt upp (frá lengri hliðinni) og setjið örlítið vatn á brúnina áður en þið klárið að rúlla deiginu alveg upp því þá festast snúðarnir betur saman. Skerið endana af svo allir verði sléttir of fínir. Skerið því næst í 12 jafna hluta (mér finnst best að skipta fyrst í miðju, þeim hlutum svo í tvennt og svo öllum í þrennt). Smyrjið skúffukökuform/eldfast mót vel með smjöri, raðið snúðunum með jöfnu millibili í formið, plastið og leyfið snúðunum að hefast aftur í um klukkustund. Hitið ofninn í 175°C. Penslið snúðana með bræddu smjörinu og bakið í um 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir. Takið snúðana úr ofninum og útbúið glassúrinn.

Glassúr

215 g flórsykur

70 g bráðið smjör

3 msk. nýmjólk

1 tsk. vanilludropar

Salt af hnífsoddi

Setjið öll hráefnin saman í skál og hrærið með skeið þar til vel blandað saman, hellið yfir volga snúðana og smyrjið glassúrnum jafnt á þá alla. Aðskiljið snúðana létt með hníf í forminu og náið þeim svo upp með spaða.

https://www.gotteri.is/2021/09/02/haegeldad-naut-i-raudvinssosu/

Hægeldað nautakjöt í rauðvínssósu

Fyrir 4-5

Nautakjöt og sósa

Um 1 kg nauta „chuck“ eða annað svipað nautakjöt

1 laukur

3 gulrætur

3 hvítlauksrif

350 ml Muga rauðvín

500 ml nautasoð

4 timiangreinar

3 lárviðarlauf

Ólífuolía til steikingar

Salt og pipar

Hitið ofninn í 160°C. Byrjið á því að brúna kjötið upp úr olíu á öllum hliðum, kryddið með salti og pipar og leggið síðan til hliðar. Skerið gulrætur niður í sneiðar, saxið laukinn gróft og rífið niður hvítlauksrifin. Bætið olíu á pönnuna sem kjötið var á og steikið við meðalháan hita þar til grænmetið fer að mýkjast aðeins, í um 5 mínútur. Takið grænmetið þá af pönnunni, hækkið hitann og hellið rauðvíninu á pönnuna. Leyfið því að sjóða í um eina mínútu og bætið nautasoði, timian og lárviðarlaufum í pottinn ásamt 2 teskeiðum af salti. Setjið þá grænmetið og kjötið aftur í pottinn, lokið á og inn í ofn í þrjár klukkustundir, snúið kjötinu einu sinni á því tímabili og sjóðið kartöflurnar fyrir kartöflumúsina á síðasta klukkutímanum. Að þremur klukkustundum liðnum má taka kjötið upp úr og geyma undir álpappír. Næst má veiða lárviðarlaufin og timiangreinarnar úr pottinum, fleygja þeim og síðan mauka laukinn og gulræturnar í soðinu með töfrasprota þar til allir kekkir eru farnir. Náið suðunni þá upp í sósunni og leyfið henni síðan að malla í um 5-10 mínútur og smakkið hana til með salti og pipar eins og ykkur þykir þurfa. Sósan þykknar við að fá að malla smá stund en ef þið viljið hana enn þykkari getið þið pískað smá sósujafnara saman við. Þá má kjötið fara aftur í pottinn/sósuna við vægan hita á meðan þið útbúið kartöflumúsina.

Kartöflumús

1,2 kg soðnar kartöflur

25 g smjör

300 ml nýmjólk

1 msk. sykur

½ tsk. salt

Flysjið kartöflurnar og setjið í pott við meðalháan hita. Hellið mjólk út á ásamt öðrum hráefnum og stappið með kartöflustöppu þar til þið hafið náð þeirri áferð sem þið óskið. Þið getið sett aðeins meiri/minni mjólk eftir því hversu þykka þið viljið hafa kartöflumúsina. Berið fram með hægelduðu nautakjöti og vel af rauðvínssósu úr pottinum.

Verðið ykkur að góðu og njótið helgarinnar með ljúffengri matarveislu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
29.03.2024

Þessar matartegundir er hjálplegt að borða áður en þú ferð að djamma

Þessar matartegundir er hjálplegt að borða áður en þú ferð að djamma
Matur
18.03.2024

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum

Rjómalagað pasta með kjúkling og sveppum
Matur
18.11.2023

„Sælkerar landsins! Sjá ég færi ykkur fögnuð“

„Sælkerar landsins! Sjá ég færi ykkur fögnuð“
Matur
05.11.2023

Guðdómleg perubaka

Guðdómleg perubaka