Ekkert er betra en ilmur af nýbökuðum vöfflum, ilmurinn er svo lokkandi. Hér er á ferðinni ómótstæðilega ljúffeng uppskrift af belgískum vöfflum úr smiðju Berglindar Hreiðars hjá Gotterí og gersemar sem eru fullkomnar fyrir helgarkaffið. Þetta er frumraun Berglindar í bakstri á belgískum vöfflum og óskaði hún eftir uppskriftum í Instastory og fékk heilan helling af uppskriftum. Þessi uppskrift var sú sem heillaða Berglindi og dómnefnd hennar, fjölskylduna og nágranna. Berglind toppar vöfflurnar með jarðarberjum og bönunum, súkkulaði- og hnetusmjöri, karamellukurli og loks er það ísinn eða rjóminn sem toppar sælkeravöfflurnar.
Belgískar vöfflur
Vöffludeigið
- 150 g smjörlíki við stofuhita
- 120 g sykur
- 3 egg
- 3 tsk. vanilludropar
- ½ tsk. salt
- 380 g hveiti
- 4 tsk. lyftiduft
- 450 ml nýmjólk
Topping
- So Vegan So Fine súkkulaði- og hnetumjör (eða aðrar bragðtegundir sem þið óskið ykkur)
- Ís eða rjómi
- Driscolls jarðarber
- Banani
- Hnetukurl
Aðferð
- Þeytið saman smjörlíki og sykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið niður á milli ásamt vanilludropunum.
- Blandið öllum þurrefnum saman í aðra skál og bætið varlega saman við smjörblönduna.
- Hellið mjólkinni að lokum saman við og skafið niður og hrærið þar til slétt deig myndast.
- Steikið vöfflur í þar til gerðu vöfflujárni og berið fram með So Vegan So Fine súkkulaði- og heslihnetusmjöri, ís/rjóma og ávöxtum, toppið með hnetukurli ef þess er óskað.