Hinn dáði pizzustaður og brugghús í Hveragerði, Ölverk, kynnti í gær til leiks nýja pizzu á matseðli sínum. Flatabakan er óhefðbundin í meira lagi og mun aðeins vera í boði í mjög takmörkuðu upplagi í kringum og á Bóndadaginn föstudaginn 21. janúar næstkomandi.
Um er að ræða „sturlaða íslenska sviða Pizzu“ svo notuð séu orð aðstandenda Ölverks en áleggið er rjómaosta-rófustappa, ferskur mozzarella, ruccola, hunangsgljáðar gulrætur, Ölverk bjór (stout) soðin sviðahaus penslaður með Ölverk Eldtungu Tað BBQ sósu og aukalega BBQ sósa til hliðar við diskinn. Verðið á góðgætinu er svo 3.150 krónur.
Framsetningin hefur vakið talsverða athygli en eins og myndin sýnir er heill sviðakjammi flaggskip flatbökunnar.
Eins og gera mátti ráð fyrir hafa viðbrögðin við nýju pizzunni verið talsverð á Facebook-síðu Ölverks þar sem hún var kynnt. Sumir eru afar spenntir fyrir því að prófa en aðrir eru ekki eins hrifnir. Það síðara gildir um bæjarstjóra Hveragerðis, Aldísi Hafsteinsdóttur, sem er mikill aðdáandi Ölverks enda er dóttir hennar, Laufey Sif, annar eigenda staðarins.
„Þó þetta væri síðasti maturinn sem væri í boði í heiminum – myndi ég ALDREI borða þetta. Ætlið þið að eyðileggja veitingastaðinn!“ spurði bæjarstjórinn augljóslega í gríni en þó með alvarlegum undirtón.