Salöt eru vinsæl í upphafi nýs árs og gaman er að prófa sig áfram með alls konar dressingum og gera þau ljúffengari fyrir vikið. María Gomez fagurkeri og matarbloggari sem heldur úti síðunni Paz.is er þekkt fyrir sínar gómsætu uppskriftir og frumlegar samsetningar á heiðurinn af þessu salati með mexíkósku tvisti, toppað með kínverskri sósu.
„Það sem er kannski smá sérstakt við þetta salat er að í því eru hráefni sem maður tengir við Mexíkó, allt nema eitt, sem maður myndi frekar tengja við kínverskan mat eða sweet chili sósa frá Blue Dragon. Ef þið vissuð það ekki þá er alveg merkilega gott að nota hana með nachos og salsa sósu og sýrðum rjóma eða í alls kyns mexíkó mat, en það er akkúrat það sem ég og Gabríela dóttir mín gerum ansi oft,“segir María.
Nú er bara að prófa og njóta.
Mexíkóskt kjúklingasalat með kínversku ívafi
½ iceberg haus
1 dl gular baunir
2 kjúklingabringur
1 dl fetaostur í olíu
1 dl salsa sósa
1 dl sýrður rjómi
1-2 dl Blue Dragon sweet chili sósa
1 avókadó
nachos eftir smekk
salt, pipar og kjúklingakrydd
María mælir með að salatið sé gert um leið og á að borða það. Best er að gera salat á einn stóran disk eða á hvern disk fyrir sig en María lagskiptir því. Svo er ómissandi að hafa auka sýrðan rjóma, salsa sósu og sweet chili sósu á borðinu ef ykkur langar að bæta á salatið.