Það er kærkomið að fá sér sjávarfang allt kjötátið yfir hátíðarnar og hér er kominn þessi fullkomni réttur úr smiðju Berglindar Hreiðars matar- og ævintýrabloggara með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar. „Ég var upphaflega á leiðinni að gera allt aðra humarpælingu hingað inn fyrir ykkur en svona fór um sjóferð þá og hún mun bíða betri tíma. Það er samt alltaf skemmtilegast þegar uppskriftapælingar taka U-beygju og þá sérlega þegar þær enda í einhverri svona dúndurdásemd,“segir Berglind og er fullkomlega sátt við þessar glæsilegu humarsamloku sem hún kallar humarpylsu.
Humarpylsur
5 stykki
- 5 pylsubrauð
- Um 700 g skelflettur humar
- 2 rifin hvítlauksrif
- 1 msk. söxuð steinselja
- Salt og pipar
- Smjör til steikingar
- Klettasalat
- Graslaukur
- Hvítlaukssósa (sjá uppskrift hér að neðan)
- Útbúið hvítlaukssósuna og geymið í kæli fram að notkun.
- Losið pylsubrauðin í sundur og steikið á báðum hliðum upp úr smjöri, leggið á disk.
- Bætið smjöri á pönnuna ásamt humri, hvítlauk, steinselju og kryddum, steikið stutta stund þar til humarinn er tilbúinn (fer að krullast upp).
- Smyrjið brauðið að innan með hvítlaukssósu, setjið þá klettasalat og humar ofan á, síðan meira af sósu og saxaðan graslauk.
Hvítlaukssósa
- 150 g Hellmann‘s majónes
- 50 g sýrður rjómi
- 2 rifin hvítlauksrif
- 1 msk. sítrónusafi
- 1 msk. söxuð steinselja
- 1 msk. hunang
- Salt og pipar eftir smekk
- Pískið allt saman í skál og smakkið til með salti og pipar.
Berið fram á skemmtilegan og frumlegan hátt og njótið í botn.