Það elda margir kalkúnabringu á hátíðisdögum. Við steikingu á kalkúnabringum er miðað við 30-40 mínútur á hvert kg í 170°C heitum ofni. Það getur þó verið gott að elda hana á minni hita í lengri tíma til að forðast að hún ofþorni. Galdurinn felst þó í að setja appelsínu og nokkrar sítrónusneiðar, í mótið til að fá ferskt bragð og aukinn raka að ógleymdri smjörklípu.
Athugið að leyniráðið hér er kjöthitamælir því stærð og gerð ofnisins getur ýmsu breytt. Leitast skal við að bringan nái 71 gráðu kjarnhita – taka hana þá út og láta standa í álpappír í um 15 mín til að hún haldi betur safanum.
1 kg kalkúnabringa
1 appelsína
1/2 sítróna
Smjör
Herb de provance kryddblanda
Kalkúnakrydd
Kalkúnakraftur frá Tasty
Setjið bringuna í eldfastmót.
Nuddið bringuna upp úr kryddi og smjöri.
Raðið appelsínu og sítrónusneiðum yfir bringuna.
Setjið væna smjörklípu yfir bringuna.
Setjið 2 msk. af kalkúnakraft í 200 ml af soðnu vatni og setjið með ofan í mótið.
Setjið lokið á og inn í ofn á 100 gráðu hita í 1,5 klst.
Setjið kjöthitamæli í bringuna.
Ausið regulega smjöri yfir bringuna og takið lokið af síðustu 15 mínúturnar.
Mælirinn á að sýna 68°C – og fara upp í 71 gráður eftir að hún er tekin út. Þá er bringan tilbúin, ef ekki þá þarf hún að vera lengur í ofninum. Gott er að leyfa bringunni að hangsa (hvíla) á borði í um 15 mín. til að hún haldi betur safanum.
Ath! ef bringan verður þurr má redda því með að bræða smjör og setja smá kalkúnakrydd og kannski 1 msk. af appelsínusafa í pott og dreypa yfir kjötið áður en það er borið fram.
Sjá hér hvernig elda á heilan kalkún og skera
Sjá hér hvernig Læknirinn í eldhúsinu Souse- vide eldar kalkúnabringu