Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari með meiru hefur haldið úti matar- og ævintýrablogginu Gotterí og gersemar frá árinu 2013 svo þetta fer að detta í níu ár um áramótin. Hún gefur líka gefið út sína eigin matreiðslubók og nú hefur litið í dagsins ljós ný bakstursbók, Börnin baka, sem Berglind gefur út í samstarfi við dóttur sína. Berglind segir að það hafi margt breyst frá því hún byrjaði fyrst að halda úti matarbloggi og í raun fremur hratt. „Það hefur ýmislegt breyst á þessum tíma, fyrst var þetta aðeins áhugamál mitt með öðru starfi en hefur nú þróast yfir í það að vera mitt aðalstarf. Við fjölskyldan búum í Mosfellsbænum og erum ekkert á förum þaðan því þar er einstaklega gott að búa,“segir Berglind sem nýtur sín í því sem hún er að gera þessa dagana.
Hvernig fékkstu þá hugmynd að gefa út bakstursbók með dóttur þinni? „Þetta er góð spurning, ef ég viss stundum hvaðan allar þessar hugmyndir koma. Ég get sjaldnast sofnað á kvöldin fyrir dansinum í kollinum á mér og þeim hugmyndum sem þar fæðast, þyrfti klárlega að hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum ef ég ætti að ná að framkvæma þær allar! Ég gaf út mína fyrstu bók árið 2019 og það var svolítið stórt skref, svo þegar maður gerir það aftur, og aftur, þá er einhvern veginn auðveldara að gera það aftur. Mér fannst bara alveg vanta á markaðinn bók fyrir börn og unglinga og þegar ég bar þessa hugmynd undir Elínu leist henni vel á og það var ekki aftur snúið.“
Hafið þið mæðgur baka mikið saman gegnum tíðina? „Já, ég hugsa ég geti ekki annað en svarað þessari spurningu játandi. Ég hef verið bakandi alla mína tíð og klárlega smitað þetta yfir í dætur mínar. Elín er alltaf eitthvað að brasa í eldhúsinu og ég má sjaldnast aðstoða eða skipta mér af svo það lá vel við að gera með henni bók þar sem hún sæi alfarið um framkvæmd uppskriftanna. Það er síðan svo þægilegt þegar börnin manns verða sjálfstæð í eldhúsinu og geta farið að gera eitt og annað sjálf. Til þess að svo verði þá þarf auðvitað að æfa sig og fá smá aðstoð frá reyndari aðilum til að byrja með.“
Hvaðan skyldi dóttirin Elín Heiða fá innblásturinn? „Mögulega frá mér, en svo er hún líka duglega að horfa á alls kyns uppskriftarmyndbönd á Youtube og víðar og kemur líka með sínar eigin hugmyndir. Pabbi hennar er í það minnsta lítið í eldhúsinu, nema þegar ég er ekki heima og þá eldar hann nánast undantekningalaust bjúgu og uppstúf, held reyndar það sé það eina sem hann kann að elda en hann fær klárlega prik í kladdann fyrir það og stelpurnar elska það,“segir Berglind og hlær.
Hvernig myndir þú lýsa bókinni Börnin baka? „Þetta er bók með einfaldar og gómsætar uppskriftir sem allir í fjölskyldunni elska. Þetta er mikið af klassískum uppskriftum eins og bananabrauð, brauðbollur, kryddbrauð, hafrakökur, vöfflur, skúffukaka og þess háttar í bland við aðrar nýstárlegri. Þetta er hin fullkomna bók til að skapa gæðastundir og hafa gaman í eldhúsinu. Litlir bakarar gætu þurft smá aðstoð, önnur börn geta vel bjargað sér sjálf og síðan eru þetta líka allt uppskriftir sem mömmur og pabbar mega gera.“
Berglind er á því að flestum börnum þyki gaman að spreyta sig í eldhúsinu. „Það finnst nánast öllum krökkum gaman að baka. Mér finnst mjög mikilvægt að þau fái tækifæri til að spreyta sig í eldhúsinu og vonandi aðstoðar bókin okkar Elínar við það og kveikir áhugann hjá fleirum að líta upp úr tölvunni/símanum/sjónvarpinu og gera eitthvað skemmtilegt saman.“
Eru þið mæðgur til til að deila með lesendum einni uppskrift úr bókinni sem smellpassar fyrir helgarkaffið eða dögurðinn? „Þessi uppskrift hér af hafraklöttum er alveg dásamleg. Nýbakaðir hafraklattar eru vinsælir hjá öllum á okkar heimili. Það er eins gott að það komi slatti af kökum úr þessari uppskrift því annars myndu þeir líklega klárast allt of fljótt. Gott er að hafa klattana með í nesti og sem millibita.“
Hafraklattar
Um 40-50 stykki
170 g sykur
220 g púðursykur
220 g smjör við stofuhita
3 egg
250 g hveiti
1 tsk. kanill
½ tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
300 g Til hamingju haframjöl
120 g Til hamingju rúsínur
30 g Til hamingju kókosflögur
Hitið ofninn í 180°C.
Þeytið saman sykur, púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
Bætið eggjunum næst saman við, einu í einu og skafið niður á milli.
Næst má setja hveiti, kanil, lyftiduft og salt í skálina og blanda vel.
Að lokum má setja haframjöl, rúsínur og kókosflögur í skálina og blanda varlega saman við.
Setjið góða matskeið af blöndu á bökunarplötu íklædda bökunarpappír og hafið gott bil á milli því deigið kemur til með að fletjast út við baksturinn.
Bakið í 12-15 mínútur eða þar til kantarnir fara að gyllast.