fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Matur

Hvar fæst besta pítsan? Álitsgjafar DV segja sína skoðun – „Þar sem ég er ruddaleg týpa með vonlausan matarsmekk er ég ekkert að flækja áleggsmálin“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 28. nóvember 2021 10:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV heldur áfram að kanna bragðlauka landans. Við erum þegar búin að spyrja álitsgjafa hvar bestu frönsku kartöflurnar fást og voru þá skoðanir afar skiptar. Hamborgarabúllan fór hins vegar heim með sigurbikarinn þegar kom að því að velja besta borgarann. Ísbúð Huppu var síðan ansi vinsæl þegar kom að vali á besta ísnum.

Nú er komið að bestu pítsunni!

Hver pantar Domino´s þó henni finnist það í raun ekki besta pítsan? Hver er vegan en meikar ekki vegan ost á pítsum og pantar þess vegna þrefaldan „alvöru“ ost á pítsuna sína? Hver vill bara gera pítsu heima í pítsaofninum? Og hver er bara með einfaldan smekk?

 

Júlía Margrét Einarsdóttir. Aðsend mynd.

Júlía Margrét Einarsdóttir, rithöfundur og dagskrárgerðarkona: „Ég ákvað að verða vegan í byrjun árs 2019 og hef verið það að mestu. Það erfiðasta við þá ákvörðun var að reyna að kyngja ógeðslega klístraða veganostinum sem hefur sömu áferð oft og kennaratyggjó en bragðast eins og gamall skápur. Ég get ekki verið heiðarleg og sagt að uppáhalds pizzan mín sé vegan, sem ostaáhugamanneskja. Satt best að segja er uppáhalds pizzan mín svona heiðarleg Turtlespizza sem osturinn lekur af og í Turtlespizzubransanum er enginn betri en Devitos. Best er að fá sér Tre Formaggi, rjómaost, cheddar og piparost, pipra vel og borða í dýflyssu með bandana á hausnum og bestu vinunum.“

Lóa Pind Aldísardóttir. Mynd: Anton Brink

Lóa Pind Aldísardóttir, fjölmiðlakona: „Bestu pitsurnar sem ég fæ eru eiginlega heima hjá mér! Með súrdeigsbotni frá Brikk. Við fengum okkur nýlega geggjaðan pitsaofn sem hefur snarhækkað pitsastaðal heimilis – svona þegar við náum þeim óbrenndum út úr ofninum, erum enn að læra. Mér finnst langbest að fá mér beikon, haug af osti, döðlur og saxaðar t.d. pistasíuhnetur ofan á. En mér er sagt að það séu gómsætar pitsur líka á Rauðku á Siglufirði, Álftanes Kaffi og svo voru þær ljómandi fínar á Ölverki í Hveragerði.“

Sveinn Waage. Aðsend mynd.

Sveinn Waage, ráðgjafi og kennari: „Ég og Viktoría dóttir mín gerum stundum „Pabba-Pizzu“ frá grunni sem er hampað mjög, af okkur sjálfum mest. Pepperóní, sveppir, rjómaostur og fleira. Ég er annars Team-eldbökun, sá eini á heimilinu, sem er hindrandi en síðast þegar ég var blown away var eftir gigg seint um kvöld í síðustu viku á Domino’s í Hafnarfirði. Fékk mér „Dóttir“ og borðaði á staðnum, sem gerist nánast aldrei. Geggjuð eins og nafnið.“

Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður Fréttablaðsins.

Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður á Fréttablaðinu: „Þegar Pizza 67 var og hét voru ekki aðeins pizzurnar þar bestar heldur voru þær síðan toppaðar með heimsendingum langt fram á nótt þar sem hægt var að fá bæði sígarettur og franskar sendar með. Þetta hefur aldrei verið toppað og verður varla á þessum ömurlegu tímum sem við lifum. Ljósið í myrkrinu kviknaði þó ekki alls fyrir löngu þegar Pluto pizza opnaði á Hagamelnum. Pizzurnar þar eru stórar og helvíti góðar sem kemur ekkert á óvart vegna þess að samkvæmt ófrávíkjanlegu náttúrulögmáli er allt mest og best á Melunum í 107. Þar sem ég er ruddaleg týpa með vonlausan matarsmekk er ég ekkert að flækja áleggsmálin sem lúta öðru náttúrulögmáli. Tvöfalt pepperone og extra ostur og málið er dautt.“

Tanja Ísfjörð. Aðsend mynd

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir, BS í sálfræði, feminískur aktívisti og meðlimur Öfga: „Mín meðmæli fara til Flatbökunnar, en þar er snilldar vegan úrval. Aðrir staðir mega step up their game mín vegna. Mín allra uppáhalds pizza á Flatbökunni er „sú jömmaða”.“

björn Leví Gunnarsson. Mynd: Eyþór Árnason

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata: „Chorizo hálfmáninn á Kaffi Laugalæk.“

Jens Andri Fylkisson

Jens Andri Fylkisson, styrktarþjálfari: „Blackbox. Inferno pizza. Mér finnst þær bragðmiklar og súrdeigsbotninn er góður. Gott hráefni og nýjungar.“

Hildur Sverrisdóttir Mynd: Valgarður Gísla

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: „Dominos er alls ekki besta pizzan í mínu lífi en heiðarlega svarið er að hún er mikið tekin í letiköstum vegna auðveldrar og aðgengilegrar þjónustu. Þá vinn ég yfirleitt með pepperóni, sveppi og svartar ólífur eða tvöfaldan skammt af osti og sveppum.“

Ragna Gestsdóttir. Aðsend mynd.

Ragna Gestsdóttir, blaðamaður hjá Birtíngi: „Við mæðginin höfum verið dyggir viðskiptavinir Domino´s frá opnun má segja, sonurinn var níu daga gamall þegar fyrirtækið opnaði hér á landi. Þar sem ein pizza dugar handa okkur þá stjórnar sonurinn einhæfu áleggi: pepperoni og svartur pipar. Langbestu pizzurnar hérlendis hef ég fengið á veitingastaðnum Bryggjunni á Akureyri.
Draumapizzan væri djúsí og sterk með „crunchy“ botni og pepperoni, rjómaosti,  rauðlauk, ferskum chili, hvítlauk, döðlum og ananas. Hvítlauksolía með.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna