Á bloggsíðunni The Petite Cook er að finna uppskrift að köku sem passar stórkostlega vel þegar að þröngt er í búi og lítið um valkosti í búrinu. Við erum að tala um æðislega Nutella-köku og það besta við hana er að það þarf aðeins tvö hráefni til að búa hana til. Gerist ekki einfaldara.
Hráefni:
5 meðalstór egg
250 g Nutella
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C og smyrjið meðalstórt kökuform. Setjið egg í hrærivél og þeytið í um 5 til 6 mínútur, eða þar til eggin eru létt og ljós og búin að þrefaldast í umfangi. Setjið Nutella í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið í um þrjátíu sekúndur. Blandið 1/3 af eggjunum saman við Nutella og hellið síðan þeirri blöndu varlega saman við restina af eggjunum á meðan þið hrærið létt. Hellið í formið og bakið í 20 til 25 mínútur. Leyfið kökunni að kólna alveg áður en hún er borin fram.