Hin tíu ára gamla leikkona Julia Butters, sem sló í gegn í myndinni Once Upon a Time… in Hollywood, fetaði í fótspor frægra leikara og leikkvenna í kvöld er hún smyglaði nesti inn á Óskarsverðlaunahátíðina í Los Angeles.
Þessu ljóstraði Julia upp í viðtali við tímaritið People, en Julia faldi samloku með kalkúni í tösku sinni.
„Þetta er samloka,“ sagði hún áður en hún tók bita. „Þetta er Óskarinn. Maður má ekki sjá eftir neinu. Nú er ekki aftur snúið.“
Í öðru viðtali sagðist hún hafa tekið með sér samloku því henni líkaði ekki maturinn á hátíðinni.
Julia er langt frá því að vera fyrsta stjarnan sem kemur með nesti á stóra hátíð. Ellen DeGeneres pantaði eftirminnilega pítsu á Óskarnum árið 2014 og Melissa McCarthy mætti með fjörutíu samlokur á Golden Globes-hátíðina í fyrra, svo fátt eitt sé nefnt.