Söngkonan Karítas Harpa Davíðsdóttir er tveggja barna móðir og á von á sínu þriðja barni. Ekki nóg með það þá er hún að vinna í nýrri tónlist og telur niður til jólanna með svokölluðu jólalagadagatali á Facebook. Frá 1. desember hefur hún sungið eitt lag sem hún deilir með aðdáendum sínum á Facebook og mun gera það til 24. desember.
Karítas Harpa lýsir venjulegum degi í lífi sínu. Hún byrjar á því að koma drengjunum sínum í skóla og leikskóla. Hún er komin 34 vikur á leið með þriðja barn sitt og ef nætursvefninn hefur verið lítill, þá reynir hún að leggja sig örlítið fyrir hádegi.
„Uppáhaldsdagarnir mínir eru stúdíó-dagar, ég er að vinna að því að leggja lokahönd á plötu sem kemur út í janúar svo ég reyni að nýta daginn í skipulag á því eða vinnu í tölvu,“ segir Karítas.
„Strákarnir litlu koma heim milli 15.00 og 16.00, þá er ýmist körfuboltaæfing með þeim eldri eða við höfum ofan af fyrir okkur með perli, bakstri, málningu og svo framvegis þar til kemur að undirbúningi fyrir kvöldmatinn. Við Aron höfum bæði mjög gaman af því að elda og skiptumst gjarnan á að elda á kvöldin.“
Karítas fylgir engu ákveðnu mataræði. „Það hefur komið mér í koll áður, þegar ég var yngri. Verandi svolítið svona allt eða ekkert týpa þá hentaði það mér illa að ætla að taka mataræði sérstaklega fyrir og fór hreinlega út í öfgar þar sem ég missti tökin á því. Í dag reyni ég að hafa mataræðið fjölbreytt, ferskt og neita mér ekki um neitt en reyni að halda skammtastærðum þá innan eðlilegra marka,“ segir hún.
Aðspurð hvort hún verji miklum tíma í eldhúsinu segir Karítas hann hafa aukist með árunum.
„Ég er alltaf meira og meira í eldhúsinu, mér finnst rosalega gaman að elda og baka. Það vita það alls ekki allir um mig en ég var nemandi við Hússtjórnarskóla Reykjavíkur vorið 2013, sem ég hreinlega elskaði. Mér finnst held ég skemmtilegra að elda og baka í dag þar sem ég er að gera það loks fyrir fleiri en bara sjálfa mig eða álíka, það er alveg fátt eins leiðinlegt og að eyða löngum tíma í að nostra við mat eða bakstur og enginn vill einu sinni smakka,“ segir hún.
„Svo hef ég verið alveg sérstaklega myndarleg núna í desember og prófað nýjar uppskriftir eins og að baka lagköku og mömmukökur með vinkonu minni sem dæmi.“
Uppáhalds máltíð?
„Einhver ferskur og góður fiskur í ofni með nóg af ofnbökuðu grænmeti, vel kryddað með léttri jógúrtsósu. Ég er alveg sérstaklega hrifin af fiski og fiskréttum,“ segir Karítas.
Morgunmatur
Uppáhaldið mitt er „spari“ grautur okkar eldri sonar míns. Hafragrautur með stöppuðum banana út í, matskeið af hnetusmjöri, kanil og mjólk. Öllu hrært vel saman. Hrikalega góð leið til að byrja daginn.
Hádegismatur
Oft eru það afgangar síðan kvöldið áður, eitthvað aðkeypt eða ef ég vippa einhverju upp er það yfirleitt einfalt. Eitthvað eins og egg/ ommeletta, grænmeti og kannski ristað brauð.
Kvöldmatur
Fiskur er vinsæll heima, við reynum að hafa hann að minnsta kosti tvisvar í viku, við erum líka rosa dugleg að gera hakk og spaghetti sem virðist alltaf ganga vel ofan í alla heimilismeðlimi.