Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir hefur verið grænkeri síðan 2016. Hún heldur úti vinsæla matarblogginu Graenkerar.is og samnefndri Instagram-síðu. Það er ekkert mál að njóta hátíðanna og öllu því sem fylgir þó þú sért vegan. Þú getur prófað þig áfram með nýjar uppskriftir eða breytt gömlum uppskriftum svo þær séu vegan. Aðspurð hvernig það er hægt, segir Þórdís að það séu vanalega nokkur hráefni sem þarf að skipta út til að „veganæsa“ uppskrift.
„Nota má vegan smjör, vegan mjólk og vegan rjóma í stað kúasmjörs, kúamjólkur og kúarjóma. Eggjum er almennt auðvelt að skipta út fyrir banana, chia fræ eða hörfræjamjöl, en ef uppskriftin kallar á þeyttar eggjahvítur er hægt að þeyta safann af kjúklingabaunum í dós, en þannig má til dæmis búa til vegan marengs. Svo eru ýmis önnur hráefni sem koma á óvart í bakstri og má til dæmis gera súkkulaðikökur úr svartbaunum eða sætum kartöflum. Nú orðið er hægt að finna vegan útgáfur af langflestum uppskriftum á netinu, en ég mæli líka með að vera óhrædd við að prófa að yfirfæra ykkar uppáhaldsuppskriftir í vegan búning,“ segir hún.
„Flest höfum við alist upp við bakstur sem kallaði á smjör, egg og mjólk, en það er ekkert sem segir að það sé rétta leiðin til að baka. Hvers vegna ekki að prófa nýjar leiðir til að gera sama hlutinn? Við sjálf, umhverfið og dýrin njótum góðs af.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að baka í kringum hátíðarnar?
„Ég er mikið jólabarn og elska að baka og elda fyrir jólin. Skemmtilegast finnst mér að baka vegan sörur, en ég nota þeyttan kjúklingabaunasafa í botnana. Einnig er ég forfallinn súkkulaðiaðdáandi og reyni að gera konfekt fyrir hver jól, til að eiga og gefa. Í lok nóvember sameinum við mamma gjarnan krafta okkar og útbúum hnetusteik og vegan útgáfu af hangikjöti fyrir jólin, en okkur finnst gott að vera tímanlega í því,“ segir Þórdís.
Truflaðar vegan súkkulaðitrufflur sem bráðna í munninum. Frábærar til að eiga með kaffinu yfir hátíðirnar, eða sem heimagerð jólagjöf fyrir vini og ættingja. Í uppskriftina er notað silken tófú sem er sérstök tegund af tófú og gefur trufflunum silkimjúka áferð.