Eliza Reid, forsetafrú Íslands, hélt í gær upp á kanadíska þakkargjörðarhátíð ásamt fjölskyldu sinni. Eliza greindi frá þessu á samfélagsmiðlum og deildi þar einnig myndum af kræsingunum sem voru á boðstólunum en Elíza er mikill listakokkur.
Í athugasemdum undir færslunni er Eliza spurð hvort einnig sé haldið upp á þakkargjörðarhátíð í Kanada. „Já en á öðrum tíma árs en nágrannar okkar í suðri gera,“ segir Eliza og bætir við að fólk frá Kanada sem búsett er hér á landi hittist venjulega á þessum degi. „En í ár er þetta bara fjölskyldan okkar, af augljósum ástæðum.“
https://www.instagram.com/p/CGN2_kaArMY/?utm_source=ig_web_copy_link
Eliza tekur sérstaklega fram í færslunni að í eftirrétt hafi verið svokallaðir Nanaimo bitar. „Þeir líta mjög girnilega út, gerðirðu þá sjálf?“ er hún spurð í athugasemd undir færslunni. „Já, þetta er allt gert af mér. Guðni hefur marga hæfileika en að elda er ekki einn af þeim.“
Þessir Nanaimo bitar eru ákaflega girnilegir en hér fyrir neðan má finna uppskrift af þeim. Uppskriftin er ættuð frá Kanada og minnir einna helst á kexbotn með búðingskremi og súkkulaðitopp.
Fyrsta lag
1/2 bolli af smjöri
1/4 bolli af sykri
1/4 bolli og 1 matskeið af kakódufti
1 egg
1 og 3/4 bollar af hafrakexi
1 bolli af kókosflögum
1/4 bolli og ein teskeið af fínt skornum möndlum (valfrjálst)
Annað lag
1/2 bolli af smjöri
3 matskeiðar af rjóma
2 matskeiðar af krembúðingsdufti (e. custard powder)
2 bollar af flórsykri
Þriðja lag
30 grömm af miðlungs sætu súkkulaði
2 teskeiðar af smjöri
Skref 1:
Blandið hálfum bolla af smjöri, sykri og kakói yfir vatnsbaði. Hrærið við og við þar til blandan er bráðin og mjúk. Hrærið eggi við og hrærið þar til blandan er orðin þykk, um 2-3 mínútur ætti að duga. Takið af hitanum og blandið hafrakexi, kókosflögum og möndlum við. Þrýstið þessu í botninn á fati.
Skref 2:
Fyrirr annað lag skal hræra saman hálfum bolla af smjöri, rjóma og krembúðingsdufti saman þar til blandan verður létt og mjúk. Bætið við flórsykrinum og hrærið þar til blandan verður aftur slétt og mjúk. Leggið yfir fyrra lagið í fatinu og kælið.
Skref 3:
Á meðan þetta er að kælast skal bræða súkkulaðið og 2 teskeiðar af smjöri saman í örbylgjuofni eða á lágum hita. Dreifið þessu síðan yfir hitt eftir að það er búið að kælast. Látið súkkulaðið verða hart áður en allt saman er skorið í bita.