Berglind Hreiðarsdóttir hefur verið með heimasíðuna gotteri.is síðan árið 2013. Þar deilir hún alls konar uppskriftum, veisluhugmyndum, hugmyndum að ævintýrum og umfjöllun um veitingastaði. Auk þess heldur hún reglulega kökuskreytinganámskeið.
Hún var að gefa út sína þriðju uppskriftabók, Saumaklúbbinn, og í henni má finna yfir 140 frábærar uppskriftir. Við fengum að forvitnast um venjulegan dag í lífi hennar og hvað hún borðar.
„Eins og staðan er núna er ég matar- og ævintýrabloggari í bland við að vera heimavinnandi húsmóðir og ég er að elska það. Ég hef unnið við mannauðsmál og verkefnastýringu frá því ég man eftir mér en langaði að breyta til og sjá hvert þetta myndi leiða mig,“ segir Berglind.
„Það eru engir dagar eins hjá mér. Stundum er ég að þróa og elda uppskriftir allan daginn, stundum langar mig bara að hendast í fjallgöngu og aðra daga er ég að stússa á fundum úti í bæ eða annað slíkt. Ég vakna þó alltaf með yngstu dóttur minni sem er þriggja ára og markmið okkar er að hún nái í leikskólann fyrir morgunmat svo við höldumst í smá rútínu. Síðan er alveg merkilegt hvað dagarnir líða hratt þegar maður er að brasa svona heima við allan daginn,“ segir Berglind og hlær.
Berglind elskar að hreyfa sig utandyra. Hún vann í líkamsræktarstöð í fimmtán ár og fékk í kjölfarið nóg af slíkum æfingum.
„Ég fer út að hlaupa og mikið í fjallgöngur og næ að núllstilla mig í fersku lofti, hvernig sem viðrar. Ég fer reyndar reglulega á Pilates-námskeið til að halda bakinu mínu í lagi en þess á milli hoppa ég og skoppa um fjöll og firnindi. Ég byrjaði einmitt á vormánuðum að deila ævintýraferðum og gönguferðum á blogginu svo nú eru öll áhugamálin mín á einum stað til að gefa öðrum hugmyndir og innblástur.“
Berglind segist alls ekki fylgja einhverju ákveðnu mataræði heldur er það í takt við árstíðir, líðan og hvað líkaminn kallar á. „Ég reyni að fara hinn gullna meðalveg í mataræðinu þó svo ég viðurkenni að ég er allt of mikill nammigrís, það er bara svo erfitt að standast freistingarnar þegar maður er sífellt að útbúa eitthvað gómsætt. Ég neita mér sjaldnast um neitt en reyni frekar að fá mér bara minna,“ segir Berglind.
„Ég reyni samt að borða alltaf reglulega allan daginn, morgunmatur, stundum millimál, hádegismatur, síðdegishressing og kvöldmatur eru fastir liðir og svo laumast kvöldsnarl inn svona annað slagið. Ég reyni að halda slíku í kringum helgarnar og segi stundum að ég sé í „4/3 átakinu“. Það felur í sér að borða ekki eftir kvöldmat fjóra daga vikunnar (mánu-fimmtudaga) en svo er allt leyfilegt hina þrjá dagana. Vinir mínir gera mikið grín að mér þegar kemur að mataræðinu en ætli hver og einn þurfi ekki bara að finna sinn takt og þetta hentar mér bara ágætlega.“
Uppáhaldsmáltíð?
„Úff, mér finnst erfitt að svara þessari. Hægeldaður lambahryggur eins og amma Guðrún gerði hann er klárlega ofarlega á þessum lista, síðan elska ég ristaða humarhala og nautalund,“ segir Berglind.
Morgunmatur:
Búst, morgunkorn.
Millimál nr. 1:
Hnetur, ávextir.
Hádegismatur:
Alls konar, ýmist spæld egg á ristuðu brauði með avókadó eða ristað brauð með sultu og kakómalt með.
Millimál nr. 2:
Hrökkbrauð, skyr, kanelsnúðar, kex. Bara eftir því í hvaða stuði ég er.
Kvöldmatur:
Allt milli himins og jarðar. Stundum nenni ég ekki að elda og þá er snarl sem er til dæmis súpa, brauð, harðsoðin egg og slíkt. Virka daga eldum við almennan heimilismat, til dæmis hakk og spagettí, fisk, kjötbollur, pítur og slíkt en um helgar reynum við að gera eitthvað fínna eins og steik eða rétti sem tekur lengri tíma að elda.