Matgæðingarnir í Facebook-hópnum Matartips eru þekktir fyrir sterkar skoðanir á íslenskum veitingastöðum. Það sannaðist líkt og oft áður fyrr í dag þegar Andri nokkur deildi mynd af hamborgara sem hann segist hafa pantað á ónefndum stað í miðbænum.
Andri segir hamborgarann hafa verið viðbjóð en mynd af honum má sjá hér fyrir neðan. „Kíkti í smá lunch í gær á ónefndum stað í borginni, mér til mikillar óánægju. Það mætti halda að yfirkokkurinn hafi hægt sér hressilega á grillið og skóflað því upp í lyfjamóki og hent á það beikoni og kallað það gott. Er þetta í alvöru í lagi?! Hvað finnst ykkur? Mér finnst þetta vera skelfing ein enda fékk ég endurgreitt. Frekar myndi ég glaður láta Wuhan veirusýktann mann hósta uppí mig en að láta þetta einhvern tímann uppí mig!!,“ skrifar Andri.
Það er ljóst að flestir eru sammála honum en á einungis tæpum klukkutíma hafa tugir manns skrifað athugasemd. „Hvaða djöfulsins myrkraverk er þetta,“ skrifar einn meðan annar segir: „Það þarf að virkilega vanda sig til að búa til svona viðbjóð.“ Sá þriðji segir þetta „wuhan borgara“ og vísar þar til bannvæna Corona-vírusins. Einn maður segir þó: „Ekkert að þessu“
Uppfært: Umræddur Andri virðist hafa verið að blekkja matgæðinga. Myndin er tekin á veitingastaðnum Krazy Jim’s Blimpy Burger í Bandaríkjunum. Þess má geta að sá staður fær mjög góða dóma.