Stjörnukokkurinn og rithöfundurinn Alton Brown kann ýmislegt fyrir sér í eldhúsinu, til dæmis að hella upp á fullkominn bolla af kaffi.
Blaðamaður á Buzzfeed rifjaði nýlega upp gamlan gullmola úr smiðju Altons þar sem hann ljóstraði upp leyndarmálinu um hvernig á að hella upp á kaffið. Gullkornið birtist fyrst í þætti af Good Eats.
Alton hefur sýslað ýmislegt í eldhúsinu og oft er það frekar flókið. Kaffiráðið hans gæti hins vegar ekki verið einfaldara og þarf bara eitt hráefni til að gera kaffibollann betri – salt.
Til að losna við beiskjuna úr kaffinu mælir Alton með því að setja 1/4 teskeið af salti á móti hverjum tveimur matskeiðum af kaffi í hvern bolla af vatni sem notaður er til að hella upp á kaffið. Þá segir Alton enn fremur að saltið fríski upp á vatn sem hefur legið í kaffivélinni lengi.
Magnað.