Það er fátt dásamlegra í skammdeginu en nachos með ostasósu. Vissulega er hægt að kaupa ostasósu út í búð en það er svo miklu betra að búa hana til sjálfur. Hér er einföld uppskrift að ostasósu sem hægt er að leika sér með, bæta við kryddi eða toppa hana með fersku, smátt söxuðu grænmeti.
Hráefni:
2 msk. smjör
2 msk. hveiti
240 ml mjólk
200 g cheddar ostur, rifinn
½ tsk. salt
Smá cayenne pipar
Aðferð:
Bræðið smjör í meðalstórum potti yfir meðalhita. Bætið hveiti saman við og hrærið vel saman í um mínútu. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stanslaust þar til blandan er kekkjalaus. Bætið osti saman við og eldið þar til hann bráðnar, í um 5 mínútur. Bætið salti og cayenne pipar út í og berið fram strax.