Una Guðmundsdóttir, Una í eldhúsinu, deilir uppskrift af gómsætum kjúklingarétti.
Þennan kjúklingarétt smakkaði ég í veiði um verslunarmannahelgina, þetta er að mínu mati einn besti réttur sem ég hef smakkað og má ég til með að deila honum með ykkur.
800 g úrbeinuð kjúklingalæri
Salt og pipar til kryddunar
150 g sólþurrkaðir tómatar
5-6 msk. rjómaostur
4-5 döðlur
80 g parma-skinka
1 rauð paprika
½ blaðlaukur
1 hvítlauksrif
½ peli rjómi
30 g smjör
1 kjúklingateningur
Ferskt timían
Leggið kjúklingabitana í eldfast mót og saltið og piprið.
Takið 1 msk. af rjómaosti og leggið á hvern bita.
Skerið sólþurrkaða tómata og döðlur smátt og setjið smá af hvoru á hvern bita, rúllið bitunum inn í parma-skinkustrimla, einn strimill á hvern bita, gott að nota grillpinna til að halda þeim lokuðum.
Skerið niður papriku, blaðlauk og hvítlauk fínt og setjið í pott, ásamt smjörinu og rjómanum, hrærið vel saman og látið hitna áður en kjúklingateningnum er bætt saman við.
Hellið blöndunni yfir kjúklingabitana og setjið inn í ofn á 180 gráður og eldið í um 40 mínútur.
Klippið ferskt timían yfir réttinn rétt áður en hann er borinn fram.
Berið fram með hrísgrjónum, hvítlauksbrauði eða góðu salati.
Verði ykkur að góðu.