Veitingamaðurinn Tómas Þóroddsson sem á og rekur staðina Kaffi Krús og Vor á Selfossi hefur keypt Messann í Lækjargötu og verða dyr staðarins opnaðar gestum að nýju klukkan 11:30 í dag. Áfram verður lögð megináhersla á ferskan fisk og upplifunin fyrir gesti sú sama og hún var fyrir lokun enda eru yfirþjónn og kokkur staðarins þeir sömu og áður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var út í morgun.
„Það er mikill fengur að þeim enda Messinn þekktur fyrir skotheldan mat og góða þjónustu. Konseptið verður alveg eins en það bætast við nokkrir nýir réttir á seðilinn og það getur nú ekki verið annað en fagnaðarefni fyrir gestina okkar“, segir Tómas Þóroddsson í tilkynningunni.
Messinn er einn vinsælasti fiskistaður borgarinnar en frægt er að þegar Ricky Gervais kom til landsins að skemmta fór hann ítrekað á Messann að borða. Þar segist hann hafa fengið besta laxaborgara í heimi, án gríns.
Messinn var áður í eigu athafnamannsins Jóns Mýrdal, sem seldi sinn hlut vorið 2019, og Baldurs Kristinssonar sem Tómas keypti af.