Ég ákvað að henda í súkkulaðiköku í morgunsárið til að hvetja unglingana fram úr í heimakennsluna og það virkaði. Þessi kaka er virkilega góð og ég kom sjálfri mér eiginlega á óvart með þessari.
Kakan er mjög fljótleg og einföld og æði með þeyttum rjóma. Nú er loksins er hægt að fá sykurlausa súkkulaðidropa á Íslandi hjá lowcarb.is og því fannst mér tilvalið að prófa þá í þessa æðislegu köku. Þar sem ég held úti samfélagsmiðlum helguðum ketó mataræðinu þá hef ég fengið vörur frá lowcarb.is að gjöf til að prófa, þar á meðal þessa súkkulaðidropa. Ég er því í samstarfi við þann aðila með ketóvænar vörur.
Hráefni:
1 bolli möndlumjöl
1/3 bolli kakó (ég nota Siríus)
1/3 bolli sykur (ég nota golden monkfruit)
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. bleikt salt
1/3 bolli brætt smjör
2 egg
1 tsk. vanilludropar
1/4 bolli grísk jógúrt
1/2 bolli súkkulaðidropar (mæli með Good Dees)
Aðferð:
Ofninn hitaður í 175°C. Öllum hráefnum hrært saman og bakað í smurðu formi, sirka 22×28 sentímetrar að stærð, í 20 mínútur.