Margir víla fyrir sér að baka og geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Sumum finnst stressandi að mæla, hita, bræða, láta hefast og baka við akkúrat rétt hitastig á meðan óþolinmæðin grípur aðra og gerir þá brjálaða.
Svo er það sú staðreynd að þegar þú hnoðar deig, í til dæmis brauð eða snúða, þá verða hendurnar afskaplega skítugar og deigið á það til að festast við fingurnar.
Við á matarvefnum erum hins vegar með snilldarráð við því. Þegar að brauð, eða annað sem þarf að hnoða, er bakað þá er um að gera að demba ekki of miklu hveiti í deigið heldur aðeins því sem þarf. Þannig verður deigið örlítið klístrað en ekki of þurrt. Þegar að deigið er búið að hefast vill það oft verða klístrað og þá er þjóðráð að bleyta hendurnar aðeins áður en unnið er með deigið. Þannig festist deigið ekki við fingurnar en smá vatn hefur engin áhrif á deigið sjálft.