Tanja Levý Guðmundsdóttir er 29 ára hönnuður með bakkalársgráðu í fatahönnun úr LHÍ og diplóma í textílhönnun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún hefur hannað vörur sem fá innblástur frá brauðtertum, sem Tanja telur að eigi að vera titlaðar sem þjóðarréttur Íslendinga.
„Hugmyndin fæddist út frá samstarfsverkefni með góðvini mínum, listamanninum Loja Höskuldssyni. Við hönnuðum tillögu að landsliðsbúningum sem áttu að sameina íþróttir og listir. Fagurfræðin var innblásin af íslenskum raunveruleika á alls kyns máta en þaðan kom brauðtertan sem einkenndi sundfatnaðinn í línunni,“ segir Tanja, sem kann sjálf að gera brauðtertur og nýtur þess að skreyta þær. „En uppáhaldsbrauðterturnar mínar eru þær sem móðir mín og systur hennar gera fyrir fjölskylduveislur. Risastórar, alls konar tegundir! Þær eru svo fallegar og ég man eftir að frá því að ég var krakki fannst mér algjör synd að borða þær vegna þess að ég vildi bara dást að því hvað þær voru fallegar, algjör listaverk.“
Tanja hefur hannað brauðtertusundbol, brauðtertuhandklæði og brauðtertueldhúsvörulínu. „Ég er svo með framhaldsverkefni í maganum sem ég vil framkvæma sem fyrst.“
Nýlega hefur brauðtertan rutt sér til rúms á samfélagsmiðlinum Facebook í hópnum Brauðtertufélag Erlu og Erlu, þar sem Tanja er einn meðlima. „Mér finnst þessi réttur alls ekki mega falla í gleymskunnar dá og eiga skilið að vera í hávegum hafður. Fyrir nokkrum árum var ég sjálf farin að sakna brauðtertunnar í fjölskylduveislum og mér fannst lítið bera á þeim í kringum mig.“ En hverjar eru ástæður vinsælda brauðtertunnar? „Ég tel að ástæðan fyrir því að brauðtertur eru svona vinsælar sé að flest okkar tengja þær við sérstök tilefni og minningar um fjölskyldusamkomu. Það má í raun segja að þær séu ákveðin táknmynd fyrir hina íslensku fjölskylduveislu. Ég á hvorki maka né börn en ég geri þær kröfur til framtíðarmaka míns að hann hafi dálæti á brauðtertum.“