Það er lítið annað að gera um páskana en að slappa af, hreyfa sig í náttúrunni og gera vel við sig í mat og drykk. Hér er einföld uppskrift að dúnmjúkum pylsuhornum sem gera páskana miklu betri.
Hráefni:
1 pakki þurrger
1 1/4 bolli volgt vatn
2-3 msk. sykur
50 g brætt smjör
3-4 bollar hveiti
1 1/2 tsk. salt
10 pylsur
sætt eða sterkt sinnep
1 egg
1 msk. mjólk
sesamfræ
Aðferð:
Byrjið á að blanda geri, vatni og sykri saman og leyfið því að standa í 5-10 mínútur, eða þar til blandan byrjar að freyða. Bætið síðan smjöri og hveiti vel saman við, sem og saltinu. Hnoðið deigið vel og skellið því síðan í skál. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um klukkutíma. Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír á ofnplötur. Skiptið deiginu í 4-5 búta og fletjið hvern bút út í hring. Skerið hvern hring í 8 parta með pítsaskera þannig að 8 þríhyrningar myndist. Smyrjið hvern þríhyrning með sinnepi. Skerið pylsurnar í hæfilega stóra bita og setjið einn bita á hvern þríhyrning. Rúllið þríhyrningunum upp, byrjið frá breiða endanum, og brettið síðan aðeins upp á endana þannig að bitarnir líkist hornum. Raðið á ofnplötu. Blandið saman eggi og mjólk og penslið hornin með blöndunni. Stráið síðan sesamfræjum yfir. Setjið viskastykki yfir hornin og leyfið þeim aðeins að hvíla í um 10-15 mínútur. Skellið þeim síðan inn í ofn og bakið í 15-20 mínútur.