Hér er ég með fiskrétt í ofni sem slær öllu við. Hann sameinar fimm af mínum uppáhaldshráefnum, sem eru fiskur, blómkál, rjómi, ostur og leynigesturinn er…Frank‘s Hot Sauce. Ég get drukkið þessa sósu, þó ég mæli samt ekki með því, en það besta er að hún inniheldur engin kolvetni.
Þessi réttur er byggður á gamalli uppskrift frá mömmu, fiskréttur sem var í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum en hún notaði HP-sósu sem er ekki beint ketó. Mig langaði svo að prufa að gera réttinn ketó og leitaði í skápunum mínum að einhverju sem gæti komið í staðinn fyrir HP. Ég var með „hot wings“ um helgina að beiðni sonar míns og Buffaló sósan hans Franks stóð enn á eldhúsborðinu og starði beint í augun á mér. Og þá gerðist eitthvað.
Hráefni:
800 g ýsa eða þorskur
½ stór eða 1 lítill blómkálshaus
salt og pipar
250–300 ml rjómi
¼ bolli Buffaló sósa
1 bolli rifinn ostur
paprikukrydd/reykt paprika
Aðferð:
Skera fiskinn í bita og raða í eldfast mót og krydda með salti/pipar. Snöggsjóða blómkálsblómin og raða yfir fiskinn. Hræra saman rjóma, Buffaló sósu og osti. Sulla því yfir fiskinn og blómkálið og krydda að lokum með paprikukryddi eða reyktri papriku. Baka við 200°C í 30 mínútur. Voila, heitur fiskur í ofni.