Úrsúla Hanna Karsldóttir, fyrrum fegurðardrottning, er þáttastjórnandi Vegan Hornsins. Vegan Hornið eru nýir þættir hjá Áttan Miðlar og matreiðir Úrsúla alls konar ljúfmeti í hverjum þætti. Hún heldur einnig úti Instagram-síðunni @Veganhornid þar sem hún deilir gómsætum uppskriftum.
DV vildi vita hvað Úrsúla borðar á venjulegum degi.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
„Venjulegur dagur hjá mér byrjar oftast (ekki alltaf haha) snemma. Ég fer á æfingu og svo byrja ég að vinna klukkan 9:00. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að vinna hjá Apótekaranum.“
Ertu búin að ákveða fyrir fram hvað þú ætlar að borða þann dag eða ferðu eftir tilfinningunni?
„Oftast já. En þá oftast bara morgunmat og hádegismat og svoleiðis. Ég er mjög dugleg að undirbúa nesti fyrir daginn eftir. En kvöldmatur er mjög oft bara eftir tilfinningunni og hvað er til handa.“
Hvað hefurðu verið vegan lengi?
„Ég hef verið vegan í þrjú ár, eða síðan árið 2016.“
Hverjir eru uppáhalds vegan próteingjafarnir þínir?
„Það er mjög mismunandi. Ég geng í gegnum tímabil þar sem ég á vegan próteinduft og finnst mér mjög gott að bæta því við hafragrautinn minn eða booztið. Jafnvel bara blandað með möndlumjólk. En stundum eru það helst baunir og tófú. Það er svo auðvelt að bæta því við réttinn sinn með blönduðu grænmeti eða líka rista kjúklingabaunir í ofni með ýmsum kryddum! Það er rosalega gott og gefur svona gott ‚crunch.‘“
Morgunmatur:
Hafragrautur með hnetusmjöri, möndlumjólk og banana. Eða þeim ávöxtum sem ég á við höndina. Mér finnst bæði kaldir og heitir grautar góðir en oftast er ég með kaldan graut í nesti því það er svo auðvelt að henda því saman og æðislega gott. Bæti svo við próteindufti oft líka. En um helgar þá skellir maður oft í bröns og gotterí. Þá finnst mér bestar pönnukökur með allskonar gúmmelaði.
Millimál:
Ávextir eða hnetur. En oft er ég ekki með mikið að fá mér millimál.
Hádegismatur:
Oftast er hádegismaturinn minn morgunmaturinn minn, en það fer rosa eftir dögum. Á virkum dögum er það oftast þannig en þá borða ég milli 11/12:00 morgunmatinn minn og fæ mér svo eitthvað létt um 15:00 leytið.
Kvöldmatur:
Mjög misjafnt. Oftast steiki ég mér fullt af grænmeti og bæti við baunum eða þá pasta með grænmeti og góðri sósu. En það er rosa misjafnt og mjög erfitt að velja bara eitt sem er svona uppáhalds!
Úrsúla Hanna deilir hér eina af uppáhalds uppskriftum sínum með lesendum.
Grænmeti að eigin vali að sjálfsögðu. En það sem ég nota í þessari uppskrift er: Brokkolí, gulrætur, mini maís, strengjabaunir og sveppir.
Allt skorið frekar smátt og steikt á pönnu með smá olíu.
Á meðan sýð ég pasta í sér potti. Ég sker síðan tófú í frekar litla teninga og bæti við á pönnuna með grænmetinuna og held áfram að steikja.
Svo í sér skál blanda ég 2 msk teryaki sósu, 1 msk soja sósu, 1 msk möndlusmjöri og 1 tsk af sriracha sósu. Blanda því vel saman og helli út á grænmetið.
Þegar pastað er tilbúið blanda ég þessu öllu saman og bæti smá sriracha sósu ofan á til að hafa það smá meira ‚spicy‘!