Hver á ekki góðar æskuminningar af möndlukökunni? Ég ákvað að nota sama grunn og ég notaði í sítrónukökuna og reyna að endurgera möndlukökuna. Ég vissi strax að það myndi virka, en það er enginn munur á þessari og „venjulegri“ möndluköku, nema að ketó kakan ruglar ekki í blóðsykrinum.
Þessi kaka er alveg milljón og fékk mjög góða einkunn hjá nammigrísnum mínum. Þá er nú mikið sagt.
Kaka – Hráefni:
¼ bolli brætt smjör
1 tsk. möndludropar
¼ bolli 18% sýrður rjómi eða grísk jógúrt
2 egg
1/3 bolli fínmöluð sæta
2 bollar möndlumjöl
1 tsk. lyftiduft
Krem – Hráefni:
½ bolli fínmöluð sæta
2 msk. rjómi
¼ tsk. möndludropar
1 dropi rauður matarlitur
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Hrærið öllum hráefnum í kökuna saman og setjið í smurt álform, sem er sirka 10×20 sentímetra stórt. Bakið í 35 til 40 mínútur. Leyfið að kólna alveg. Búið síðan til krem. Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í kreminu þar til það þykknar, en ekki of. Skreytið kökuna og verði ykkur að góðu.