Bláber og sítrónur eru stórkostleg blanda, en þessi blanda er í aðalhlutverki í þessari einföldu köku. Uppskriftin er af Delish og því haldið fram á síðunni að kakan bragðist eins og vorið. Það er nú ekki leiðinlegt!
Kaka – Hráefni:
225 g smjör, mjúkt
1 bolli sykur
4 stór egg
1 tsk vanilludropar
börkur af 1 sítrónu, rifinn
2 bollar + 2 msk hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 bollar fersk bláber (nokkur tekin frá til að skreyta með)
Glassúr – Hráefni:
1 bolli flórsykur
2 msk sítrónusafi
Aðferð:
Hitið ofninn í 175 og smyrjið ílangt form. Blandið smjöri og sykri vel saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel. Bætið vanilludropum og berki saman við og blandið. Blandið 2 bollum af hveiti, lyftidufti og salti saman í annarri skál. Blandið þurrefnunum síðan varlega saman við smjörblönduna. Setjið flest bláberjanna í litla skál og blandið þeim saman við 2 matskeiðar af hveiti. Setjið bláberin síðan í deigið og blandið með sleif eða sleiku. Hellið deiginu í formið og stráið restinni af bláberjunum yfir. Bakið í 1 klukkustund og 10 mínútur. Leyfið að kólna alveg. Á meðan er glassúrinn gerður með því að hræra flórsykur og sítrónusafa vel saman. Hellið yfir kælda kökuna og berið fram.