Það er fátt verra en að henda mat, sérstaklega þegar hægt að breyta mat á síðasta snúningi í veislumat. Hér er til dæmis góð leið að nýta tómata sem eru við það að skemmast.
Hráefni:
tómatar
nokkrir hvítlauksgeirar, án hýðis
nokkrar greinar ferskt timjan eða 1 tsk. þurrkað timjan
salt og pipar eftir smekk
ólífuolía
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C. Setjið tómata í eldfast mót, en stærðin fer eftir því hve mikið af tómötum þið eruð með. Ef um stóra tómata er að ræða er gott að grófsaxa þá. Blandið hvítlauksgeirunum (heilum) með sem og timjan. Saltið og piprið. Drissið vel af ólífuolíu ofan á tómatana. Setjið í ofninn í 1 til 1 ½ klukkustund. Fylgist vel með þeim en þeir eru tilbúnir þegar þeir byrja að karamelliserast. Berið fram sem meðlæti eða með góðum ostum.