María Gomez er mikill ástríðukokkur en hún heldur úti síðunni paz.is. Hún segir áramótahefðirnar talsvert frjálslegri en þær sem koma að jólahátíðinni þar sem allt snúist um að halda hefðunum óbreyttum frá barnæsku. Við fengum Maríu til að deila tveimur af sínum eftirlætisuppskriftum að hinum fullkomna eftirrétti yfir hátíðirnar. „Þótt ég reyni að halda í þær hátíðarhefðir sem ég ólst upp við, höfum við vissulega skapað okkar eigin saman sem fjölskylda. Jólin eru talsvert heilagari að mínu mati en áramótin því þá finnst okkur alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég hef verið með allt milli himins og jarðar, lambalundir, hreindýr, kalkún, reyktan hátíðarkjúkling og bara nefndu það. Stundum er ég þó mjög hefðbundin og endurtek aðfangadagskvöldið með hamborgarhrygg ef þannig liggur á mér. Það eru þó alltaf vissir fastir punktar sem fylgja áramótunum hjá mér, til dæmis að fara á brennu, horfa á fréttaannálinn þar sem árið er rifjað upp og svo horfa á áramótaskaupið auðvitað, sama hversu leiðinlegt eða skemmtilegt það er.“
Engin jól án Nóa
Einn af föstum liðum á aðventunni segir María vera að baka lakkrístoppa og engiferkökur, en samhliða þeim bakar hún ýmsar aðrar sortir. „Fastur punktur í jóla- og áramótahaldi er þó alltaf Nóa Siríus-konfektið, en það er langbesta konfektið mitt og hefur verið frá barnsaldri, það eru engin jól án þess. Það vill svo heppilega til að við hjónin elskum hvort sína tegundina af molum en ég vill bara marsípanmolana á meðan Ragnar og börnin kjósa frekar þá fylltu, svo ég get setið ein að marsípanmolunum sem hverfa furðulega hratt ofan í mig.“
Áramótin oft erfið
María segir áramótin oft geta reynst erfið tilfinningalega. „Einhverra hluta vegna finnst mér áramótin oft vera smá erfið og eiga þau það til að hræra upp í mér, veit ekki alveg hvað það er, en það er eins og nýtt upphaf sé að byrja og þá kvíðir maður smá því sem verða vill, veit ekki alveg hvort aðrir tengi en ég hef oft fundið þetta yfir áramótin. Ég reyni þó auðvitað að halda í góða skapið og eiga gott kvöld með fjölskyldunni og borða góðan mat og snakk og osta yfir skaupinu, en það er hefð sem hefur fylgt mér úr æsku. Gamlárskvöld er auðvitað partí og þá hefur maður snakk. Fyrir þessi jól og áramót ákvað ég að baka bæði lakkrístoppa og hátíðarpavlovu sem mig langar að deila með ykkur. Lakkrístopparnir eru þó ekki nýir af nálinni en á þennan hátt hef ég gert þá í langan tíma. Þeir eru dúnmjúkir inni í og smá seigir, en segja má að þeir séu í pavlovulíki þar sem ég set í þá Maizena-mjöl og borðedik sem gerir þá guðdómlega góða, sérstaklega daginn eftir. Það er svo alveg bannað að geyma þá í kæli því það gerir þá bara harða. Hugmyndin að pavlovunni fæddist hins vegar fyrir þessi jól. Þar sem bragðarefur er mitt uppáhald ákvað ég að reyna að koma honum í hátíðarbúning í líki spariköku, sem myndi vera bæði jólaleg og minna á uppáhaldsbragðarefinn minn. Ekki er útkoman slæm. Hockey Pulver, fersk jarðarber, Þristur og Snickers út í rjómann! Getur ekki klikkað. Tertuna er einfalt að gera ef hún er látin vera í ofninum, en hafa slökkt á honum, yfir nótt þá lukkast hún pottþétt. Flestir vita hvað pavlova er en það er marens sem búið er að bæta í sýru og sterkju svo hann verður mjúkur inn að miðju, nánast eins og sykurpúði, en stökkur og þurr á endunum. Sama og ég geri með lakkrístoppana. Ekki láta ykkur bregða ef hann er ekki alveg þurr eins og hefðbundin marens, því þannig á pavlova einmitt að vera. Ég vona að þið njótið vel.“
Pavlova
• 4 stórar eggjahvítur
• 225 g strásykur
• 2 tsk. Maizena-mjöl
• 1 tsk. borðedik
Hitið ofninn á 175°C blástur. Þeytið eggjahvíturnar þar til þið sjáið för eftir pískinn. Byrjið þá að bæta við sykri smátt og smátt meðan þær þeytast. Þegar þær eru alveg að verða stífþeyttar bætið þá Maizena-mjöli og ediki út í og blandið vel saman. Stífþeytið það vel að hægt sé að hvolfa skálinni án þess að nokkuð hreyfist. Teiknið hring á bökunarpappa um 23–25 cm. í þvermál. Fyllið inn í hringinn með eggjahvítunum og myndið svo dæld í miðjunni eða eins og brunn þar sem fyllingin kemur. Lækkið nú ofninn niður í 100°C, stingið inn og bakið í eina og hálfa klukkustund. Slökkvið svo á ofninum og leyfið botninum að kólna alveg í ofninum, best ef hægt er yfir nótt. Athugið ef pavlovan er sprunginn í botninn skiptir það engu, takið bara það sem fellur af og setjið í sprungurnar áður en hún er fyllt.
Fylling
• 350 ml rjómi
• 40 g flórsykur
• 7–10 fersk jarðarber
• 1/2 tsk. vínsteinslyftiduft eða cream of tartar
• 2 msk. Hockey Pulver
• 7 litlir Þristar
• 2 lítil Snickers
Best er að setja á pavlovur rétt áður en á að neyta þeirra, ólíkt marenstertum, svo ekki gera það fyrr. Setjið þá rjómann, vínsteinslyftiduft, Hockey Pulver og 5 stöppuð jarðarber (skorin smátt og stöppuð með gaffli) saman í hrærivélarskál. Byrjið fyrst að þeyta á lágum hraða og aukið svo hraðann þar til rjóminn er alveg stífþeyttur. Skerið niður Þristinn og Snickers í smáa bita og leggið til hliðar. Skerið niður rest af jarðarberjum, mjög smátt. Hrærið svo jarðarberjum, Þrist og Snickers ofur varlega saman við rjómann með sleikju. Setjið fyllinguna í brunninn á pavlovunni eða dældina, eins miklu og þið komið fyrir. Dreifið smá Hockey Pulver yfir rjómann og skreytið með ferskum berjum, Snickers og Þristum.
Ég veit að flestir elska lakkrístoppa og ég er þar á meðal. Ég veit líka að hjá mörgum eiga þeir það til að misheppnast. Ég hef smakkað alls kyns toppa hjá fólki. Harða að utan með keim af brunabragði og glerhörðum lakkrís haha, harða að utan og hola að innan, svo það er ekkert nema skelin og bara nefndu það. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að gera þá bara „my way“, og eftir það hafa þeir alltaf lukkast hjá mér, sama hvað. Þessir eru eins og marens að utan en mjúkir og seigir innan í. Lakkrísinn helst líka mjúkur og þeir molna akkúrat ekkert. Ég nota alltaf hvítan sykur í toppana í stað púðursykurs en mér finnst þeir bara heppnast betur þannig. Ég hef líka núna í seinni tíð byrjað að nota Maizena-mjöl og borðedik en það bitnar alls ekkert á bragðinu, en gerir þá svona mjúka inni í. Það mætti því kannski segja að þeir séu í svona pavlovu-útgáfu. Okkur finnst þeir allavega mjög góðir svona og ég vona ykkur finnist það líka.
Lakkrístoppar
• 4 eggjahvítur
• 200 g strásykur
• 1/2 tsk. cream of tartar eða vínsteinslyftiduft (er það sama)
• 150 g Nóa-rjómadropar eða 200 g niðurskorið rjómasúkkulaði
• 1 poki eða 150 g lakkrískurl, súkkulaðihúðað
• 1 tsk. Maizena-mjöl
• 1 tsk. borðedik
• 1/2 tsk. gróft lakkríssalt, en því má líka sleppa
Hitið ofninn á 180°C blástur. Setjið svo eggjahvítur í skál og byrjið að þeyta. Þegar þær eru orðnar hvítar og þið sjáið för eftir pískinn í þeim byrjið þá að bæta sykrinum út í, smátt og smátt, gott er að setja eins og matskeið í einu. Þeytið vel þar til þið getið hvolft skálinni án þess að leki úr og hvíturnar eru orðnar alveg pikkstífar. Bætið þá við Maizena-mjöli, borðediki og saltinu ef þið kjósið að hafa salt. Hrærið því vel inn í blönduna í hrærivélinni. Þegar því er lokið hellið þá lakkrískurlinu og smátt skornu súkkulaði eða dropunum út í og hrærið mjög varlega saman. Best er að gera það með sleikju eða gaffli og afar rólega svo ekki fari allt loft úr toppunum. Ég setti svo toppana í sprautupoka með engum stút og klippti frekar vítt gat á hann og sprautaði á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Bakið svo í 10 mínútur á 180°C blástur og lækkið svo niður í 160°C blástur og bakið í aðrar 10 mínútur.
Leyfið toppunum að kólna ögn áður en þið takið þá af bökunarplötunni og færið þá yfir á annað fat. Ef þið reynið að taka þá of snemma þá munu þeir fara í klessu. Mikilvægt er að leyfa þeim að þorna og kólna uppi á borði í eins og 15–20 mínútur. Best er svo að geyma toppana ekki í kæli, heldur í krukku eða boxi uppi á borði svo þeir haldist dúnmjúkir.