Þessa uppskrift fundum við á matarvefnum Delish og þurftum að deila henni áfram. Hér er um að ræða köku sem er eins og risastór piparkaka með fullt, fullt af glassúr. Gerist ekki jólalegra!
Hráefni:
2 2/3 bolli hveiti
1 tsk. matarsódi
3 tsk. engifer
1 msk. kanill
1 tsk. allra handa
¼ tsk. salt
160 g smjör, mjúkt
1 bolli púðursykur
2 egg
1 tsk. vanilludropar
¾ bolli melassi
1 bolli heitt vatn
Glassúr – hráefni:
1 bolli flórsykur
2 msk. mjólk
½ tsk. kanill
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C og smyrjið brauðform vel. Blandið hveiti, matarsóda, engiferi, kanil, allra handa og salti saman í skál og setjið til hliðar. Þeytið smjör og púðursykur vel saman. Bætið því næst eggjum og vanilludropum saman við. Blandið melassa og heitu vatni vel saman í lítilli skál. Blandið því saman við eggjablönduna og loks við þurrefnin. Hellið í formið og bakið í 55 til 60 mínútur. Kælið. Hrærið öllum hráefnum í glassúrinn vel saman og skreytið.