Nú er aðventan loksins hafin og margir sem byrjaðir eru að baka jólasmákökurnar. Hér eru dásamlegar dúllur á ferð sem eru stútfullar af Mars-i og innihalda leynihráefni, sem er búðingsduft en það gerir kökurnar dúnmjúkar og ómótstæðilegar.
Hráefni:
155 g mjúkt smjör
½ bolli púðursykur
¼ bolli sykur
1 pakki Royal-vanillubúðingur
¼ tsk. vanilludropar
1 egg
1 ½ bolli hveiti
½ tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
¼ tsk. sjávarsalt
2–3 Mars-súkkulaði (grófsaxað)
Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á ofnplötur. Blandið smjöri, púðursykri og sykri mjög vel saman. Bætið því næst vanillubúðingnum saman við. Bætið vanilludropum og eggi vel saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti vel saman í annarri skál og bætið því næst út í smjörblönduna. Blandið Mars-bitum varlega saman við með sleif eða sleikju. Raðið kökunum á plöturnar og bakið í 10-12 mínútur.