Dustið ávexti og ber með smá hveiti áður en þið bætið þeim út í kökudeig svo ávextirnir sökkvi ekki niður á botn. Það sama á við um súkkulaðibita.
Leyfið kökum að kólna í formunum í um það bil korter. Ef þið takið kökurnar úr formunum strax geta þær liðast í sundur og orðið að einhverju stórslysi.
Ef þú ert óviss um hvort lyftiduftið sé í lagi er þjóðráð að setja eina teskeið af lyftidufti í vatnsglas. Ef blandan freyðir ekki er lyftiduftið ónýtt og á best heima í ruslatunnunni.
Það getur tekið dágóða stund að sigta þurrefnin en það borgar sig. Þá losnar maður við alla kekki og kökurnar verða léttari í sér. Hljómar það ekki vel?
Ef þú nennir ekki að baka frá grunni og vilt frekar grípa kökumix þá dæmi ég þig ekki! En ég vil bara segja þér að þú getur gert kökuna þúsund sinnum betri með því að nota smjör í staðinn fyrir olíu og mjólk í staðinn fyrir vatn. Þú getur jafnvel prófað að bæta við einu eggi umfram það sem stendur á leiðbeiningunum. Alveg satt!
Vissir þú að þú getur notað Jello hlaupduft til að lita krem og glassúr? Það er ágætis tilbreyting frá matarlitnum og gefur ansi hressandi bragð í þokkabót.
Það er svo lítið mál að það er hlægilegt! Taktu þér smjörpappír í hönd og klipptu út ferhyrninga sem eru 13 cm. x 13 cm. – eða í hvaða stærð sem er. Notaðu glas til að móta ferhyrningana og þá er það komið!
Ef þú vilt skrifa á köku, til dæmis með súkkulaði eða kremi, en ert pínulítið efins um að það takist, þá er um að gera að taka sér smjörpappírsörk í hönd. Klipptu út bút sem er jafnstór og eins í laginu og kakan og skelltu honum á plötu eða disk sem er flatur. Skreyttu smjörpappírinn og þurrkaðu hreinlega mistökin af honum ef þú gerir einhver. Þegar þú ert fullkomlega ánægð/ur með skreytinguna skellirðu smjörpappírnum í frysti í að minnsta kosti hálftíma. Síðan tekurðu skreytinguna varlega af pappírnum og setur á kökuna. Einfalt!
Ef þú vilt ganga í augun á gestunum þínum ættirðu að hita hnífinn sem þú skerð kökur með, til dæmis með því að láta heitt vatn renna á hann í smá stund. Sneiðarnar verða fallegri og það verður auðveldara að skera kökuna.
Þetta er svo einfalt en svo ofboðslega mikilvægt atriði. Eitthvað sem ég hef lært af biturri reynslu, skal ég segja ykkur. Þegar maður er nefnilega að leika sér í eldhúsinu þá verður maður oft svo spenntur (þegar ég segi maður þá er ég að tala um sjálfa mig) að maður man ekkert hvað maður gerði og getur því ekki fyrir sitt litla líf endurtekið það. Þannig að kauptu þér litla minnisbók, punktaðu niður hvað þú gerðir, hvað var gott, hvað virkaði ekki og svo framvegis. Þú átt eftir að þakka fyrir þessa olíubornu minnispunkta seinna meir.
Segðu öllum sem þér þykir vænt um frá geggjaðri uppskrift sem þú varst að prófa. Sendu þeim uppskriftina og leyfðu þeim að njóta hennar líka. Það er nefnilega ofboðslega gaman að miðla bakstursþekkingu sinni til annarra!