María Gomez, konan á bak við paz.is, er ein af sex konum og vinsælum matarbloggurum sem koma að uppskriftabókinni Vinsælustu réttirnir frá vinsælum matarbloggurum. María hefur í nægu að snúast og rekur stórt heimili. Hún á fjögur börn; þau Gabríelu, tuttugu ára, Reyni Leó, sex ára, Mikael, fimm ára og Ölbu, fjögurra ára, og er gift Ragnari Má Reynissyni. Heimilislífið getur verið fjörugt hjá hjónunum, en María segist ekki hafa dreymt neitt sérstaklega um að eignast heilan her af börnum.
„Sem barni dreymdi mig alltaf um að eiga mörg systkini og mömmu og pabba sem væru gift en ég var einkabarn til ellefu ára aldurs en þá eignaðist ég systur. Mamma og pabbi skildu þegar ég var fimm ára. Ég var samt ekkert með nein sérstök plön um hvernig mín eigin kjarnafjölskylda ætti að vera, en ég var lengi einstætt foreldri með Gabríelu, eða þar til hún var tólf ára. Svo kynntist ég Ragnari, manninum mínum, og örlögin tóku völdin og ég endaði á að eiga þessa stóru, flottu fjölskyldu sem ég gæti ekki verið stoltari af og ánægðari með að hafa eignast. Ég hefði samt aldrei trúað því að ég myndi enda sem fjögurra barna móðir,“ segir hún og hlær.
María segir að dagurinn hjá fjölskyldunni sé afar hefðbundinn, það er vaknað og farið í vinnu og skóla, síðan er skutlað í alls kyns tómstundir, kvöldmatur borinn á borð og háttað. Oftar en ekki endar María sjálf steinsofandi í sófanum fyrir framan imbakassann. Svo getur auðvitað allt gerst þegar þrjú börn undir sjö ára aldrei koma saman.
„Ég vildi að ég gæti sagt að börnunum semji öllum frábærlega vel, en því miður er það ekki þannig. Þau eru eins og lítill herflokkur þar sem ríkir oft stríð, en þá er verið að rífast um dót, hvað eigi að horfa á, hver eigi að fá að hafa fjarstýringuna eða að eitthvað sé ósanngjarnt því hinn hafi fengið meira af einhverju en annar. Þau passa, hvert og eitt, 100 prósent upp á sitt, sko. En auðvitað eru líka góðir tímar inni á milli og þau ná góðri tengingu og leika fallega – þar til það svo endar aftur í stríði,“ segir María og skellir upp úr.
Það kemur líklega ekki á óvart að María sér að mestu leyti um matseldina á heimilinu, enda listakokkur. Þá hefur matarástin smitast út í börnin.
„Ég held að flest börn hafi einlægan áhuga á að fá að hjálpa til við eldamennsku. Oft þarf það ekkert að vera flóknara en að rétta þeim bretti og óbeittan hníf og láta þau skera gúrku, þá finnst þeim þau vera að fá að taka þátt,“ segir María. En hvernig fær maður stanslausan innblástur til að fæða sex manna fjölskyldu? „Ef ég er þannig stemmd að ég nenni engan veginn að elda þá er oft sótt eitthvað tilbúið eða bara hrært í skyr og flatkökur. Stundum hefur meira að segja bara Cheerios með mjólk verið í boði þegar ég er extra löt. Oft er ég með hugmyndir að einhverju afar fljótlegu sem ég er enga stund að henda í, eins og pítupítsa sem er ristað pítubrauð sem ég set svo pítsusósu ofan á, pepperóní, skinku og ost og svo bara undir grillið í ofninum. Það tekur um fimm mínútur að gera þetta, svo það er fín redding, en kannski ekkert voða næringarríkt. Svo er ég líka með margar uppskriftir á blogginu sem eru mjög einfaldar og auðvelt að henda í, eins og brauðsneið með hráskinku á spænskan máta. Oft geri ég líka „avókadó-toast“ eða ristaða súrbrauðsneið með tómötum, ferskum mozarella-kúlum, ferskri basilíku, olíu og salti en það er alveg svona „gourmet“ redding sem tekur fimm mínútur að gera.“
Ekki er hægt að sleppa Maríu áður en hún mælir með rétti úr nýútgefinni bók sem hentar þeim sem koma þreyttir heim úr vinnu og hafa lítinn tíma fyrir eldamennsku.
„Ég þykist vita að tíminn milli 5 og 8, úlfatíminn, á flestum heimilum landsins getur verið ansi strembinn. Það geta alveg verið viss rólegheit í því að elda, því það þarf ekki alltaf að vera eitthvað mikið umstang í kringum það. Ef börnin geta notið þess með og hjálpað þá er það enn betra því þá getur maður sameinað gæðastund með börnunum og eldamennskunni. Mexíkósku lime-kjötbollurnar, sem eru á blaðsíðu 229 í bókinni, eru alveg tilvalin uppskrift til að gera þegar maður kemur þreyttur heim og nennir varla að elda, hún er svo ótrúlega einföld og ekkert vesen að gera hana og enn betra að krakkarnir geta hjálpað til og mótað bollurnar.“
Hægt er að fylgja Maríu á Instagram með því að smella hér.
Í bollurnar þarf:
Fyrir 4–6
500 g grísahakk/svína og 500 g nautahakk (trúið mér þær eru bestar þannig, en einnig má nota bara grísa- eða bara nautahakk)
1 dl haframjöl
1 msk. laukduft
1 msk. hvítlauksduft (ath. ekki með salti)
2–3 msk. tómatsósa
2 –3 msk. sojasósa
1 egg
Börkur af tveimur lime-ávöxtum
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Byrjið á að setja báðar tegundirnar af hakkinu saman í skál og blandið varlega saman með höndunum. Passa að hnoða ekki mikið. Setjið næst haframjöl, hvítlauks- og laukduft út á. Setjið næst sósurnar og eggið og raspið lime-börkinn út á. (Passið að nota bara þetta græna, alls ekki raspa niður í hvíta lagið á lime). Hnoðið því næst öllu varlega saman þar til allt er jafnt blandað en reynið að komast af með að hnoða sem minnst svo bollurnar verði ekki seigar. Mótið næst meðalstórar bollur eða svona svipaða stærð og sænskar kjötbollur og raðið á bökunarplötu klædda smjörpappír. Bakist í ofninum í 25 mínútur. Byrjið svo næst á að gera salsað og guacamole á meðan bollurnar malla í ofninum.
U.þ.b. 25 stk. góða, rauða, litla tómata (má vera kirsuberja, heilsu, picadillo eða hvað þeir allir kallast) um 1–2 box af tómötum
1 dós Del Monte ananas í bitum og safinn með
Safi úr 1/2 lime
4 vorlaukar
2 msk. ólífuolía
5–10 dropar tabasco-sósa
salt og pipar
1 msk. agave-síróp, hlynsíróp eða önnur sæta
Aðferð:
Skerið allt frekar smátt í salsað. Tómatana sker ég í tvennt en restina reyni ég að hafa frekar smátt. Hellið svo safa, tabasco og olíu út á og saltið og piprið eftir smekk. Setjið svo sætuna að lokum og smakkið til.
1 stórt eða 2 lítil avókadó
1 rauður, ferskur belgpipar
salt og pipar
lime-safa ef vill
Aðferð:
Skerið belgpiparinn í tvennt og fræhreinsið ef þið viljið ekki loga í munninum. Skerið hann svo næst í örsmáa bita. Stappið avókadóið með gaffli, en mér finnst það ekki þurfa að vera alveg maukað, finnst gott að hafa það gróft. Hrærið næst þessu tvennu saman og saltið og piprið eftir smekk. Setjið nokkra dropa af lime-safa ef vill.