Á nýju ári huga margir að breyttum lífsstíl og samkvæmt áramótaskaupinu kemur ketó sterkt inn. Margir eru einmitt núna að taka sín fyrstu skref en vita ekki hvar á að byrja.
Ég mæli með því að leggjast fyrst í smá rannsóknir og lesa allt sem þið finnið um ketó. Það þarf ekki að kosta neitt. Veraldarvefurinn er ágætis heimild og lykilorðið er ketó. Svo mæli ég eindregið með heimildarmyndunum The Truth About Carbs og The Magic Pill.
Það er einnig hægt að finna fjöldann allan af stuðningshópum á Facebook eins og Keto Iceland, LKL stuðningsgrúbba fyrir konur, og svo hófst núna eftir áramót 100 daga keto áskorun, sem er skemmtilegt að fylgjast með. Í þessa hópa er hægt að sækja stuðning, aðhald og aðstoð. Allir hjálpast að og allir vinir. Þar er einnig hægt að finna innkaupalista sem er gott að styðjast við.
Svo eru einnig margir góðir snapparar sem er skemmtilegt að fylgjast með og fer þar fremst í flokki hún Hanna Þóra á fagurkerar.is. Hún var einmitt mín fyrsta ketó-vinkona og hjálpaði mér mikið í upphafi.
Nú ætla ég að henda inn einni lítilli uppskrift að ketó-snakki sem er ótrúlega auðvelt og frábært til að taka með í bíó þegar aðrir eru kjamsa á nachos með ostasósu.
Hráefni:
1 stór kúrbítur og krydd að eigin vali, til dæmis taco krydd eða ranch
Heimagerð ranch-kryddblanda:
2 msk. steinselja
1 ½ tsk. dill
2 tsk. hvítlauksduft
2 tsk. laukduft
2 tsk. laukflögur
1 tsk. þurrkaður graslaukur
1 tsk. salt
1 tsk. pipar
Aðferð:
Það er gott að nota mandólín til að skera kúrbítinn en ef þið eigið ekki svoleiðis má skera hann í sneiðar með hníf. Passa bara að sneiðarnar séu ekki of þykkar. Dreifa sneiðunum í einfalda röð á ofnplötu með smá olíu og pensla svo aftur með olíu áður en flögurnar eru bakaðar við 120°C í 1 til 1 ½ klukkustund með blæstri. Passa bara að þær séu orðnar vel stökkar áður en þær eru teknar út.
Endilega fylgið mér á Instagram og Snapchat þar sem ég verð mjög virk á næsta ári.