Hér er ein skotheld uppskrift og svo einföld. Allir geta gert þessar kökur, þær taka enga stund og aðeins tvö grömm af kolvetnum í tveimur kökum.
Ég gerði bestu súkkulaðibitakökur sem ég hef prufað um daginn, og hef ég gert þær margar. Ég er algjör nammigrís en á ketó duga mér ein til tvær kökur til að seðja mínar langanir. Svo gott þegar hinir nammigrísirnir eru að fá sér eitthvað gotterí. Oftar en ekki hafa ketó-kökur verið heldur þurrar fyrir minn smekk en þessar hittu í mark og bráðna uppi í manni.
Meira að segja gikkurinn sonur minn, sem nú skagar hátt í tvo metra, gúffaði þeim í sig með bestu lyst.
Hráefni:
115 g mjúkt smjör
½ bolli Sukrin Gold sæta
1 tsk. vanilludropar
2 egg
½ bolli kókoshveiti
½ tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
½ bolli sykurlaust súkkulaði, grófsaxað (Systur og makar eru með frábært úrval af sykurlausu súkkulaði)
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Smjör, sæta og egg hrært saman. Síðan er í þurrefnunum blandað út í og loks súkkulaðibitum. Búið til kúlur úr deiginu og raðið á smjörpappírsklædda ofnplötu. Þrýstið kökunum aðeins niður fyrir bakstur svo þær verði ekki of kubbslegar. Bakið í 12 til 15 mínútur.