Enn á ný er komin glæný vika sem þýðir að margir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eiga að hafa í matinn. Hér eru nokkrar uppástungur og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Uppskrift af The Cozy Apron
Hráefni:
2 hvítlauksgeirar, maukaðir í hvítlaukspressu
1 tsk. Dijon sinnep
1 tsk. sítrónusafi
½ tsk. sítrónubörkur, rifinn
1/8 paprikukrydd
salt og pipar
2 msk. ólífuolía
4 lúðuflök
ferskt dill
sítrónusneiðar, til að bera fram með
Aðferð:
Hitið ofninn í 230°C og setjið ál- eða smjörpappír á ofnplötu. Blandið hvítlauk, sinnepi, sítrónusafa, berki, paprikukryddi, salti og pipar saman í skál. Bætið síðan olíunni saman við og blandið vel. Raðið lúðuflökunum á ofnplötuna og penslið með olíumarineringunni. Leyfið þeim að draga í sig marineringuna í nokkrar mínútur. Bakið í 10 mínútur. Stillið síðan á grillstillinguna og grillið í 2 til 3 mínútur. Stráið fersku dilli yfir fiskinn og berið fram með sítrónusneiðunum og meðlæti að eigin vali.
Uppskrift af Happy Body Formula
Kúrbítsnúðlur – Hráefni:
1 kg kúrbítur
1 msk. salt
1 msk. ólífuolía
2 hvítlauksgeirar
¼ tsk. kúmen
¼ tsk. pipar
Kjúklingur – Hráefni:
4 kjúklingabringur
1 msk. ólífuolía
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
Önnur hráefni:
2 skalottlaukar
7–10 fersk myntulauf
¼ bolli pistasíuhnetur, saxaðar
1 msk. sítrónusafi
Aðferð:
Notið svokallaðan „spiralizer“ til að búa til núðlur úr kúrbítnum. Setjið núðlurnar í skál og blandið salti saman við. Skerið kjúklinginn í lengjur. Hitið olíu í stórri pönnu yfir meðalhita. Stráið salti og pipar yfir kjúklinginn og steikið í 2 til 3 mínútur. Snúið lengjunum við og steikið í 2 til 3 mínútur til viðbótar. Hrærið reglulega í kjúklingnum þar til hann er eldaður í gegn. Setjið hann síðan á disk og hyljið með álpappír. Skerið laukinn þunnt og saxið myntulaufin. Blandið þessu saman við hneturnar og sítrónusafann. Síðan klárum við núðlurnar. Setjið olíu í litla skál, maukið hvítlaukinn og bætið honu msaman við olíuna. Bætið kúmeni og pipar saman við. Setjið núðlurnar í hreint viskastykki og kreistið vökva úr þeim. Setjið núðlurnar í pönnuna sem þið steiktuð kjúklinginn í og hitið í 2 til 3 mínútur yfir meðalhita. Ýtið núðlunum á eina hlið pönnunar og lækkið hitann. Bætið hvítlauksolíunni út í og hitið í 20 sekúndur. Hrærið stanslaust í olíunni. Blandið henni síðan saman við núðlurnar. Slökkvið á hitanum og bætið kjúklingi og pistasíublöndunni saman við. Hrærið vel og berið strax fram.
Uppskrift af Veggie desserts
Hráefni:
1 msk. olía
1 laukur, saxaður
2 msk. hveiti
750 g ferskir tómatar, grófsaxaðir
500 ml grænmetissoð
2 msk. tómatpúrra
Aðferð:
Hitið olíu í stórum potti yfir meðalhita. Bætið lauk út í og eldið í 4 mínútur. Blandið hveitinu saman við og hrærið. Bætið tómötum, soði og púrru saman við og náið upp suðu í blöndunni. Lækkið hitann og látið malla í 10 mínútur. Maukið með töfrasprota. Berið strax fram, jafnvel með ferskum kryddjurtum og fræjum.
Uppskrift af Delish
Hráefni:
1 msk. ólífuolía
½ laukur, saxaður
1 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
450 g nautahakk
1 msk. taco krydd
salt og pipar
1 dós svartar baunir
2 bollar kirsuberjatómatar
1 bolli gular baunir
12 tortilla-kökur
2 bollar rifinn ostur
1 bolli rifinn cheddar ostur
1 bolli mulið nachos-snakk
2 vorlaukar, skornir smátt
sýrður rjómi
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Hitið olíuna í stórri pönnu yfir meðalhita. Steikið laukinn í um 5 mínútur. Bætið hvítlauk við og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Bætið hakki saman við og eldið þar til það er ekki lengur bleikt, eða í um 6 mínútur. Hellið fitunni af. Hrærið taco kryddi saman við sem og salti og pipar. Bætið svörtu baununum saman við, en haldið eftir sirka ¼ af bolla. Bætið 1 ½ bolli af tómötum saman við sem og gulum baunum. Dreifið smá af hakkblöndunni í botninn á eldföstu móti og raðið síðan tortilla-kökum ofan á. Hellið síðan 1/3 af osti, 1/3 af hakkblöndunni ofan á og raðið tortilla-kökum ofan á. Endurtakið þar til allt er búið og skreytið toppinn með muldu snakki, osti og baunum. Bakið í um 20 til 25 mínútur og skreyið með tómötum, baunum og vorlauk. Berið fram með sýrðum rjóma.
Uppskrift af Delish
Hráefni:
450 g „skirt“ steik
salt og pipar
3 msk. maíssterkja
1 tsk. + 1 msk. grænmetisolía
450 g grænar baunir
3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1–2 msk. engifer, rifið
¼ bolli sojasósa
1 msk. hrísgrjónaedik
3 msk. sykur
2 vorlaukar, saxaðir
1 msk. sesamfræ
Aðferð:
Setjið kjöt í stóra skál og saltið og piprið. Blandið maíssterkju saman við og setjið til hliðar. Hitið 1 matskeið af olíu í stórri pönnu yfir meðalhita og eldið baunirnar í 1 mínútu. Bætið 2 matskeiðum af vatni saman við og setjið lok á pönnuna. Gufusjóðið í 1 mínútu. Setjið baunirnar á disk og hellið vatni af þeim. Hækkið hitann og hitið restina af olíunni. Bætið kjötinu út í og steikið í 2 til 3 mínútur. Lækkið hitann og bætið hvítlauk, engiferi, sojasósu, ediki og sykur saman við. Hrærið vel og bætið baununum, vorlauk og sesamfræjum saman við. Berið strax fram.