Lágkolvetnakóngurinn og einkaþjálfarinn Gunnar Már Sigfússon gaf nýverið út bókina KETO og gaf matavefnum góðfúslegt leyfi til að birta eina uppskrift úr bókinni.
Fyrir 2 – eldunartími 25 mínútur
Þú þarft að eiga olíu, salt og svartan pipar
Hitaðu ofninn í 180°C og stilltu á blástur
Hráefni:
350 g lax
rauð, gul og græn paprika, skornar í strimla
1 lítill laukur eða rauðlaukur, skorinn í sneiðar
1 súraldin
½ búnt kóríander, smátt saxað
2 lárperur
2 msk. sýrður rjómi
Aðferð:
Settu laxinn á bökunarpappír í ofnskúffu. Notaðu salt og pipar til að krydda hann eða veldu krydd að eigin vali, má vera frjálslega kryddaður. Settu laukinn, paprikurnar og kóríander í skál og veltu upp úr ólífuolíu og salti og pipar. Dreifðu paprikublöndunni í ofnskúffuna kringum laxinn. Skerðu súraldin í tvennt og kreistu annan helminginn yfir laxinn og grænmetið og settu hann síðan í ofnskúffuna. Notar hinn helminginn eftir eldunartímann. Settu allt inn í ofn í 20 mínútur. Hrærðu í paprikunum tvisvar á eldunartímanum svo þær eldist jafnt. Maukaðu lárperur með gaffli og hrærðu saman við sýrða rjómann. Bættu við góðri klípu af salti og berðu maukið fram með laxinum og grænmetinu. Kreistu súraldinsafa yfir ef þú vilt meira af súru.