Það er gaman að leika sér í eldhúsinu og útbúa alls kyns snarl og góðgæti. Auðvelt er að búa til kartöfluflögur heima við en þessar flögur eru alls ekki úr kartöflum heldur radísum – og alveg jafn bragðgóðar.
Hráefni:
7 meðalstórar radísur
1 msk. grænmetisolía
1/2 tsk. hvítlaukskrydd
salt og pipar
ídýfa
Aðferð:
Hitið ofninn í 110°C. Skerið radísurnar í mjög þunnar og jafnar sneiðar. Hér er gott að nota mandólín ef maður á svoleiðis græju. Setjið allar radísusneiðarnar í stóra skál. Bætið olíu og hvítlaukskryddi saman við og blandið vel. Saltið og piprið og blandið. Raðið flögunum í einfalda röð á stóra ofnplötu sem klædd er með smjörpappír. Bakið þar til flögurnar eru stökkar, eða í klukkustund eða klukkustund og korter. Leyfið þeim að kólna í 5 mínútur og berið síðan fram með ídýfu að eigin vali.