Pistlahöfundurinn Kate Bernot hjá vefsíðunni The Takeout skrifar áhugaverðan pistil um salatgerð, en í honum kemur fram stórsniðug brella sem hefur breytt sýn hennar á salat.
„Einfaldasta salatbrellan sem ég hef lært er að bæta einni eða tveimur skeiðum af sultu í heimagerða salatsósu. Sultan gerir sósuna sæta, sem vantar oft í edikssósur, og býður upp á alls kyns möguleika í bragðblöndum. Salatþreyta er til en hún hverfur ef þú átt nóg af sultu,“ skrifar Kate.
Kate prófaði þetta í fyrsta sinn þegar hún átti ekkert hunang.
„Ég opnaði ísskápinn til að finna eitthvað annað sætt og þá sá ég appelsínu marmelaði. Af hverju ekki? Það virkaði og bætti við kærkomnu sítrusbragði í sósuna. Þetta hefur einnig virkað þegar ég blanda balsamikediksósu við berjasultu – það er ástæða fyrir því að jarðarber og balsamik eru klassísk blanda,“ skrifar hún.
Eina sem hún vill vara lesendur við er að passa að grunnur salatsósunnar og sultan sem verður fyrir valinu passi saman, en auðvitað er fólki frjálst að prófa sig áfram í þessu sem og öðru.