Vefsíðan Delish er yfirfull af geggjuðum uppskriftum, en þessi snúðauppskrift veldur andvökunóttum. Hve girnilegir eru þessir snúðar?!
Deig – Hráefni:
1¼ bolli volg mjólk
½ bolli + 1 tsk. sykur
2½ tsk. þurrger
4½ bolli hveiti
¼ bolli púðursykur
2 tsk. salt
½ tsk. matarsódi
2 stór egg
115 g mjúkt smjör
Fylling – Hráefni:
¾ bolli púðursykur
2 msk. kanill
½ tsk. múskat
½ tsk. salt
½ bolli ristaðar pekanhnetur, saxaðar
4 msk. smjör, brætt
Toppur – Hráefni:
115 g smjör, brætt
½ bolli púðursykur
¼ bolli hunang
1 tsk. vanilludropar
1 bolli ristaðar pekanhnetur, saxaðar
Aðferð:
Byrjum á deginu. Smyrjið stóra skál með smá olíu. Blandið mjólk, 1 teskeið af sykri og gerinu saman í lítilli skál. Látið standa í um tíu mínútur, eða þar til blandan freyðir. Blandið hveiti, púðursykri, restinni af sykrinum, salti og matarsóda saman í stórri skál. Bætið gerblöndunni og eggjunum saman við. Blandið vel saman í um fimm mínútur. Bætið síðan smjörinu saman við, einni matskeið í einu, og hnoðið vel þar til allt er vel blandað saman. Setjið deigið í olíubornu skálina, setjið hreint viskastykki yfir og látið hefast í um klukkustund. Á meðan getið þið blandað öllum hráefnum í fyllinguna vel saman, nema smjörinu. Hitið ofninn í 200°C og smyrjið stórt eldfast mót. Dustið hveiti á hreinan borðflöt og fletjið deigið út. Penslið með brædda smjörinu og stráið fyllingunni jafnt yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í tólf jafn stóra snúða. Blandið síðan öllum hráefnum í toppinn saman í skál, nema pekanhnetunum. Hellið blöndunni yfir snúðana og stráið hnetunum yfir. Setjið viskastykki aftur yfir og látið hefast í um hálftíma. Bakið í 20 mínútur og leyfið að kólna í um korter áður en snúðarnir eru bornir fram.