Páskarnir eru handan við hornið og gaman að leika sér í eldhúsinu á þessari rólegu og góðu hátíð. Hér eru á ferð æðislegar súkkulaðikökur sem líta út eins og moldarbeð með gómsætri gulrót í. Krakkarnir elska þessar!
Hráefni – „Gulrætur“:
jarðarber
appelsínugult súkkulaði (eða hvítt súkkulaði litað appelsínugult)
Hráefni – Bollakökur:
3/4 bolli hveiti
3/4 bolli sykur
1/3 bolli kakó
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1/8 bolli olía
1/3 bolli sýrður rjómi
2 msk. mjólk
1/3 bolli sjóðandi heitt vatn
1 egg
1 tsk. vanilludropar
Hráefni – Krem:
100 g mjúkt smjör
200 g flórsykur
75 g dökkt súkkulaði (brætt)
2-3 msk. kakó
1 tsk. vanilludropar
nokkur Oreo-kex
Aðferð:
Byrjum á „gulrótum“. Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni með 30 sekúndna millibili þar til það er bráðið. Hrærið vel í blöndunni á milli lota í ofninum.
Dýfið jarðarberjunum í súkkulaðið og raðið þeim á smjörpappír. Leyfið súkkulaðinu að storkna. Svo eru það bollakökurnar. Hitið ofninn í 180°C og takið til 12 bollakökuform. Blandið þurrefnum vel saman í skál. Blandið blautefnum, nema vatni, vel saman í annarri skál. Blandið blautefnunum vel saman við þurrefnin. Blandið síðan vatninu varlega saman við þar til allt er vel blandað saman. Deigið verður í þynnri kantinum. Deilið deiginu á milli formanna og bakið í 15-18 mínútur. Leyfið kökunum að kólna áður en þær eru skreyttar. Svo er það kremið. Þeytið smjör í 4-5 mínútur. Bætið því næst flórsykri, súkkulaði, kakó og vanilludropum vel saman við og hrærið vel. Ef kremið er of þykkt má bæta smá mjólk út í það. Skerið út holu í miðjunni á hverri köku. Smyrjið kreminu í kringum holuna og myljið Oreo-kex ofan á kremið. Stingið síðan „gulrótum“ ofan í holuna. Þetta er ekki flókið!