Hér kemur ný uppskrift úr tilraunaeldhúsi Höllu en þetta er dúnmjúk, eðalborin marmarakaka. Þessi hittir beint í mark hjá ungum sem öldnum.
Hráefni:
115 g smjör
1 bolli sæta að eigin vali (ég prófaði Allulose sykur sem hægt er að panta á netinu. Hann er silkimjúkur og kornin svo fín)
220 g rjómaostur, mjúkur
4 egg
1 tsk vanilla
börkur af 1–2 klementínum (má sleppa)
safi úr 1–2 klementínum (má sleppa)
2 bollar möndlumjöl
1 msk. lyftiduft
1 tsk. bleikt salt
½ tsk. Xanthan gum
1/3 bolli kakó
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C og takið til form sem er 23×10 sentímetra stórt. Hrærið smjör og sætu saman þar til blandan er ljós og kremuð. Þeytið rjómaosti saman við. Bætið eggjum saman við, einu í einu og leyfið þeim að blandast vel saman við. Bætið vanillu saman við og berki og safa úr klementínum. Ég gerði þetta til að fá smá bragðkeim af þeim. Þessu má sleppa en gerir mikið fyrir kökuna – appelsína og súkkulaði eiga svo vel saman. Blandið möndlumjöli, lyftidufti, bleiku salti og Xanthan gum saman við smjörblönduna. Skiptið blöndunni í tvennt og blandið kakói saman við annan helminginn. Setjið blöndurnar til skiptist í formið og bakið í 65 til 70 mínútur. Tíminn er svolítið „tricky“ þar sem kakan er blaut og gæta þarf að hún brúnist ekki of mikið á toppnum. Því er sniðugt að breiða álpappír yfir formið ef hún fer að dökkna um of. Kakan er tilbúin þegar að prjónn eða hnífur kemur hreinn úr miðju hennar.
https://www.instagram.com/p/Bu_mBt7gs75/?utm_source=ig_embed