fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Matur

Hverjir eiga djúpsteiktu pylsuna?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 17. mars 2019 10:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Djúpsteikta pylsan er bæði elskuð og alræmd. Hún þykir einstakt lostæti, stökk og langtum bragðmeiri en hin soðna systir hennar. Fyrir þá sem koma algerlega af fjöllum þá er um að ræða hefðbundna vínarpylsu sem dýft er í djúpsteikingarpott. Hefðbundnar sósur eru settar á og svo auðvitað laukur. En hefð hefur skapast fyrir að setja annaðhvort bakaðar baunir eða rauðkál undir einnig. Ofan á þetta er sett kóróna af bræddum osti og kryddi. Kransæðarnar þrengjast við það eitt að finna lyktina af djúpsteiktri pylsu. Þetta er hinn fullkomni þynnkumatur, strangheiðarlegur og meinóhollur.

Velgengni í Hafnarfirði

Í dag er hægt að finna djúpsteiktar pylsur í næstum hvaða vegasjoppu sem er. Fínir veitingastaðir eru meira að segja farnir að bjóða upp á djúpsteiktar pylsur, en þá vitaskuld með útfærslu sem ekki sést í sjoppunum. Þetta var hins vegar ekki alltaf raunin.

Í kvartöld var erfitt fyrir höfuðborgarbúa að komast í djúpsteiktar pylsur. Það var talinn norðlenskur siður, eða jafnvel ósiður, að borða djúpsteikta pylsu. Einn staður varð hins vegar þekktur fyrir að selja djúpsteiktar pylsur, Pylsubarinn í Hafnarfirði. Pylsubarinn var opnaður við Fjarðargötu fyrir um kvartöld og hefur allan tímann selt þetta gúmmelaði.

Pylsubarinn var hins vegar ekki fyrsti veitingastaðurinn á höfuðborgarsvæðinu til að selja djúpsteiktar pylsur. Árið 1992 bryddaði Sjóbúðin á Grandagarði upp á þessari nýjung á matseðli sínum. Þá var ekki aðeins osti og kryddi bætt við þetta hefðbundna, heldur einnig salatblaði, tómati og gúrku.

Grobbnir Akureyringar

Saga djúpsteiktu pylsunnar er mjög á huldu en óhætt er að fullyrða að þessi uppfinning sé komin að norðan. Einn þjóðfélagshópur vill eigna sér djúpsteiktu pylsuna öðrum fremur, Akureyringar. Akureyringar eru um margt sérstakir þegar kemur að mat, sérstaklega skyndibita. Þeir setja kokteilsósu á allar pylsur og jóðla bearnaise á flest sem á vegi þeirra verður. Þá setja þeir gjarnan franskar kartöflur undir pylsur eða inn í hamborgara og kalla það Akureyring. Auðmýktin er ekki meiri. Auk þess hafa myndast sértrúarsöfnuðir í kringum staði eins og Bautann, Greifann og Brynju ís.

Þá djúpsteiktu vilja Akureyringar einnig eigna sér. Setja jafnvel undir hana franskar kartöflur eða rauðkál. Í auglýsingu fyrir verslunarmannarhelgarhátíðina Halló Akureyri var djúpsteikt pylsa með öllu sagður „sérréttur Akureyringa.“ Einn heitasti staðurinn á Akureyri var hin eina og sanna Essosjoppa við Leiruveg, sem í dag heitir Leirunesti undir merkjum N1.

Sú sjoppa stendur við eystri leiðina bænum, í átt að Þingeyjarsýslum. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun um að þetta líti út eins og ákveðin ögrun við Húsvíkinga sem einnig hafa eignað sér réttinn.

Húsavík
Dagur-Tíminn 22. nóvember 1996.

Bitrir Húsvíkingar

Víkur sögunni til Húsavíkur, eitt kalt nóvemberkvöld árið 1996. Blaðamenn Dags-Tímans áttu leið um bæinn og komu við í sjoppunni Nesti í bílinn, hluta af fjölskyldufyrirtæki sem sá um alhliða þjónustu við bíla. Leigu og sölu einnig.

Blaðamennirnir ráku augun í auglýsingu þar sem stóð „djúpsteiktar pylsur.“ Þeir höfðu aldrei heyrt um þetta áður sem sýnir glöggt hversu lítil útbreiðsla var á þessum tíma. Afgreiðslustúlkan Erla skellti pylsu í djúpsteikingarfeitina og færði þeim til að smakka.

Jafnframt sagði hún þeim að rétturinn hefði verið fundinn upp á Húsavík. Þaðan hefði hann ratað til Akureyrar þar sem hann „dafnaði út um lúgur.“ Ekki var laust við að biturðar gætti í garð Akureyringa fyrir að hafa „stolið“ réttinum.

Minna þekkt fyrirbæri sem sannarlega er hægt að rekja til Húsavíkur er hið svokallað „svoleiðis.“ Það var skinka, salatblað og gúrka, borið fram í pylsubrauði með bræddum osti og kryddi. Var þetta selt í bensínstöðvum bæjarins um tíma í kringum aldamótin síðustu. En Húsvíkingar pössuðu sig á að auglýsa það ekki og taka fljótt úr sölu, þrátt fyrir vinsældir, til þess að Akureyringar stælu því ekki líka.

Hógværir Siglfirðingar

Þegar grafið er dýpra og flett aftar í söguna kemur hins vegar svolítið óvænt í ljós. Það er að árið 1990 voru djúpsteiktar pylsur seldar á enn öðrum stað á Norðurlandi, Siglufirði. Þetta ku vera elsta ritaða heimild um djúpsteiktar pylsur sem DV er kunnugt um. Ekki hafa Siglfirðingar samt hátt um þetta.

Á Siglufirði var snókerstaður sem bar nafnið Knattborðsstofan þar sem einnig voru seldar heitar veitingar. Í jólablaði Neista frá 1990 eru djúpsteiktar pylsur auglýstar þar en ekki eins og einhver nýjung. Má því ætla að rétturinn hafi verið þekktur í bænum fyrr. Rétturinn var ennþá á boðstólum eftir að stofan breytti um nafn og varð að Billanum tveimur árum síðar.

Komin til að vera

Ekki skal hér slegið niður hamri og úrskurðað um hver fann upp djúpsteiktu pylsuna. Að öllum líkindum var hún ekki fundin upp í Pylsubarnum í Hafnarfirði eða Leirunesti á Akureyri, höfuðvígjunum tveimur.

Sjálfsagt veit enginn hvaðan hún kom þótt freistandi sé að ætla að annaðhvort Húsavík eða Siglufjörður séu fæðingarstaðurinn. En eitt er ljóst, djúpsteikta pylsan kom til að vera. Það sem áður þótti subbulegur þynnkumatur, þykir í dag boðlegt á fínustu veitingahúsum miðbæjarins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna