Bolludagurinn nálgast og eflaust margir sem ætla að taka forskot á sæluna um helgina og annað hvort baka eða kaupa bollur. Hér er skotheld uppskrift að vatnsdeigsbollum sem klikkar aldrei.
Hráefni:
2 bollar vatn
230 g smjör
2 bollar hveiti
1 tsk. salt
6–8 meðalstór egg
Aðferð:
Hitið ofninn í 215°C og setjið bökunarpappír á ofnskúffur. Setjið vatn og smjör í pott og bræðið saman yfir meðalhita. Hér þarf lítið að hræra en á meðan smjörið bráðnar er hrært kannski 2 til 3. Hafið hveitið tilbúið. Um leið og smjörið er bráðnað takið þið pottinn af hellunni og hellið öllu hveitinu saman við. Hrærið mjög rösklega í blöndunni þar til hún er hætt að festast við hliðar pottsins og myndar kúlu. Gott er að vinna deigið vel með sleif þannig að það steikist og opnist. Setjið deigið í skál og leyfið því að kólna nánast alveg. Blandið salti við. Takið til eggin og hér kemur mikilvægasta skrefið af þeim öllum. Hrærið eitt egg í einu saman við deigið og hrærið alveg þar til það er vel blandað saman við deigið. Þið megið ekki klikka á þessu því þá falla bollurnar og verða glataðar. Deigið á að vera mjög fallega gult, glansandi og eilítið stíft. Hér er því mikilvægt að hræra eitt egg saman við í einu og hætta þegar að deigið er orðið tilbúið. Ef um mjög stór egg er að ræða þarf færri egg en sagt er í uppskriftinni. Notið skeið eða sprautupoka til að búa til bollur með ágætu millibili á ofnskúffurnar. Bollurnar fara svo inn í ofn og þurfa 25 til 30 mínútur til að bakast. Og hér kemur annað mjög mikilvægt – alls ekki opna ofninn fyrstu 20 mínúturnar. Þá geta bollurnar fallið. Leyfið bollunum að kólna og fyllið og skreytið að vild.