Þetta brauð er algjör snilld – sérstaklega fyrir þá sem eru ekkert alltof vanir því að baka brauð og treysta sér ekki í mikið hnoð og hefingar. Þetta brauð þarf nefnilega ekkert að hnoða og leynihráefnið er ekki af verri endanum – nefnilega bjór.
Hráefni:
85 g ostur
3 bollar hveiti
3 msk. sykur
3 tsk. lyftiduft
1 1/2 tsk. salt
1/2 tsk. pipar
350 ml bjór
2 msk. smjör, brætt
Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Skiptið ostinum í tvennt og skerið annan helminginn í ferninga og rífið hinn helminginn niður. Blandið hveiti, sykri, lyftidufti, salti og pipar saman í skál. Hellið bjórnum saman við og hrærið varlega saman þar til allt er orðið blautt. Deigið á að vera klístrað. Blandið ostinum saman við. Hellið deiginu í brauðform sem búið er að smyrja og hellið bráðnu smjöri yfir deigið. Bakið í 50 til 60 mínútur eða þar til tannstöngull sem stungið er í miðjuna kemur hreinn upp úr brauðinu. Leyfið brauðinu að kólna í forminu í 10 mínútur og takið það síðan úr. Njótið strax eða geymið.