Hera er mikill reynslubolti og var fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2010 með lagið Je Ne Sais Quoi. Hún segist alltaf undirbúa sig á sama hátt fyrir viðburði, hvort sem um er að ræða stórviðburði eins og Eurovision eða minni skemmtanir.
„Ég passa mikið upp á svefninn. Ég er svolítil næturdrottning. Ég hugsa mikið og græja og geri seint á kvöldin, sérstaklega þegar ég er í skemmtilegum verkefnum. Svefninn er númer eitt, tvö og tíu. Ef ég sef ekki, þá kemur það strax niður á röddinni. Maður verður rámur vegna þreytu og það er ekki gott að fara inn í daginn í því ástandi og eiga jafnvel eftir að syngja lagið oft og æfa það,“ segir hún og heldur áfram.
„Ég drekk eins mikið vatn og ég get. Svo er ég mjög einbeitt þegar kemur að vítamínskammtinum. Ég tek mikið af D- og C-vítamíni, B12 og Krill-olíu,“ segir Hera og sest við eldhúsborðið til að taka til vítamínskammtinn. „Ég reyni að passa að allar varnir líkamans séu vel nærðar og undirbúnar fyrir þetta. Þessi keppni er sérstaklega mikil orkusuga. Ekki bara keppniskvöldið, því áreitið er stöðugt. Til dæmis þegar maður er í Hagkaupum og fólk vill stoppa og spjalla við mann eða þegar maður þarf að opna sig í fjölmiðlum,“ segir hún og hlær. „Maður þarf að gera alls kyns hluti sem maður er ekki vanur að gera dagsdaglega og þetta eru allt hlutir sem taka orku. Það fyrsta sem lætur á sér kræla í slíkum aðstæðum er kvef, ef maður passar sig ekki. Ég er hokin af reynslu, sem er ótrúlega gott. Ég er 46 ára og búin að vera í bransanum í þrjátíu ár. Það er ég sem þarf að stjórna og ég þarf að vera öguð þegar kemur að vítamínum, vatni og svefni. Það tekst ekkert alltaf. Stundum get ég ekki sofið eða hleyp út og gleymi vítamínunum. Sem betur fer er Hera ekki fullkomin.“
Eins og margir vita hefur Hera unnið mikið í sér sjálfri síðustu misseri og geislar af heilbrigði í dag. Stór hluti af því eru breyttar matarvenjur söngdívunnar.
„Það sem kom mér í bobba á sínum tíma og gerði það að verkum að ég þyngdist og þyngdist og þyngdist var að ég borðaði nánast ekkert yfir daginn og settist síðan við át á kvöldin,“ segir Hera. „Nú reyni ég að hlusta á hvað líkaminn vill. Ég fókusa mikið á próteininntöku, til dæmis. Ég borða skyr og er mikill aðdáandi laktósafrírrar Hleðslu. Hún minnir á kókómjólk og mér líður eins og litlum krakka þegar ég drekk hana. Að auki er hún það sem ég gríp í bílnum þegar ég annars myndi fá mér eitthvert drasl. Stundum fæ ég mér líka gróft rúgbrauð með hnausþykku lagi af einhverri góðri kæfu. Það er mjög orkugefandi þegar maður er á hlaupum. Annars reyni ég að sneiða framhjá mikið unninni kjötvöru, en kæfan verður að vera með. Þá læt ég eftir mér rosalega dýra kæfu sem er með betra drasli í,“ segir hún og hlær dátt.
Hera er mikið fyrir ávexti og grænmeti, en það er einn ávöxtur sem hún er sérstaklega sólgin í.
„Hæ, ég heiti Hera og er avókadóisti,“ segir hún og brosir. „Ef það er avókadó í matnum verð ég vandræðalega spennt.“
Söngkonan er þar af leiðandi ekki laus við þau vonbrigði sem fylgja því að kaupa sér græna lárperugullið í matvöruverslunum til þess eins að opna það og sjá brúnt og slepjulegt avókadó blasa við.
„Ég missi stundum kúlið í grænmetisborðum í verslunum þjóðarinnar. Ég nefnilega lenti í því að búa í Síle þar sem avókadó er ræktað og framleitt. Þú opnar ekki avókadó þar nema það sé fullkomið. Það er bara þannig. Að koma síðan heim með þennan brjálæðislega háa standard á avókadó og sjá það sem er verið að bjóða okkur upp á; „It breaks my heart“ og ég missi kúlið æ ofan í æ. Ég byrja alveg að ranta yfir avókadó-úrvalinu og tek Indriða á þetta. Til að borða eitt avókadó kaupi ég átta stykki til að vera örugg. Svo fara sjö þeirra í þeyting þótt þau séu á grafarbakkanum – sem þau eru sorglega oft. Ég kvelst af þessu avókadó-óvirðingarlandi hér. Þetta getur ekki gengið svona,“ segir Hera og hlær. Það kemur því lítið á óvart hvað hún ætlar að hafa baksviðs að maula á í Söngvakeppninni.
„Eitt sem verður að koma hér fram eru avókadó-frönskurnar á Sushi Social. Jesús minn – hvað er það?! Það er geðveikt! Ég tek hattinn ofan af fyrir þeim einstaklingi sem ákvað að henda avókadó í djúpsteikingarpott og sjá hvað myndi gerast. Þetta er mín sakbitna sæla. Ég hugsa að ég taki með mér einn slíkan skammt og hafi hann kláran ef ég skyldi komast áfram. Þá fæ ég mér avókadó-franskar.“
Þótt Hera hugsi vel um hvað hún lætur ofan í sig viðurkennir hún fúslega sína veikleika þegar kemur að mataræði.
„Ég hlaut ekki framheilaskaða þegar ég grenntist. Ég þarf enn þá á vissu magni af sykri og kolvetni að halda. Ég komst að því þegar ég fór að stúdera mataræði að ég þarf víst góðan slurk af kolvetnum yfir daginn, bara svo heilinn geti unnið. Það gladdi mitt litla hjarta að ég gat enn þá borðað ristað brauð með smjöri og osti og heitt kakó með. Það er uppáhaldsmaturinn minn í öllum heiminum. Það er eins konar skammdegishuggun. Og núna langar mig í svona fyrst ég tala svona mikið um það,“ segir hún og brosir kankvís.
Kæfa, ristað brauð með smjöri og osti, heitt kakó. Uppáhaldsmatur söngkonunnar minnir um margt á eftirlæti margra úr barnæsku.
„Já, það er rétt,“ segir hún og hlær. „Mér var sagt að maður gangi aftur í barndóm um fimmtugt. Ég stefni hraðbyri þangað. Ég farin að læra að meta soðna ýsu, sem ég leit ekki við áður. Ég fussaði yfir henni í mörg ár. Í dag finnst mér allur maturinn hennar mömmu geggjaður. Þegar mamma hóar, hlaupa allir ungarnir af stað – af því að allir ungarnir eru komnir yfir fertugt,“ segir Hera og bætir við að það sé ekki aðeins mataræðið sem er innblásið af æskuárunum.
„Það er þetta temmilega kæruleysi gagnvart lífinu þegar maður eldist. Maður verður opnari fyrir fólki. Óhræddari við að elska og knúsa og segja hvað manni finnst. Börn eru þar. Þau eru rosalega einlæg og opin. Ég er að upplifa það vel að tileinka mér þá kosti, frekar en að fara í fuss og svei. Maður fattar líka um hvað lífið snýst. Það snýst bara um þessar grunnþarfir og hafa þær góðar – fá nægan svefn, halda heilsu og nærast. Síðan koma öryggisþarfirnar inn í það – að hafa þak yfir höfuðið, fólkið sitt í kringum sig, eiga rúm til að sofa í og góða vini. Það er hvergi minnst á að maður þurfi að eiga dýran bíl og fullt af flottum hlutum. Það kemur tímabil í lífinu þar sem maður heldur að það sé málið – að maður hreyfir sig eftir hópnum og sýnir af sér hjarðhegðun. Hjarðhegðun er það sem stýrir samfélaginu og sú hætta fyrir hendi að maður endi í hjörðinni að eilífu. Ég gerði það eins og allir aðrir, en síðan sá ég að ég nennti ekki að hanga í hjörðinni. Þá skildi ég mig frá henni og sá að það eru alls konar möguleikar þarna úti.“
Nú eru aðeins nokkrir klukkutímar þar til Hera stígur á sviðið í Háskólabíói. Hún er hins vegar pollróleg og vel undirbúin, sefur til 10 alla morgna og segir að reynslan hjálpi henni tvímælalaust að takast á við þetta verkefni. En hvað eigum við eftir að sjá frá Heru á stóra sviðinu?
„Þið eruð að fara að sjá mig. Nú nenni ég ekki að þykjast lengur. Við ætlum að mæta, við Herurnar, á svið og syngja um okkar samband í gegnum árin og hvernig við erum búnar að komast að samkomulagi um að taka frí frá hvor annarri þegar önnur okkar þarf á því að halda. Þetta er það sem ég er búin að vera að vinna í undanfarin ár – þetta innra samband sem maður á við sjálfan sig og stjórnar manni þegar maður tekur ákvörðun. Maður lætur stjórnast af sinni eigin neikvæðu rödd og hlustar á sína ljótu og niðurbrjótandi raddir. Það myndi enginn vinur, eða jafnvel ókunnugur, segja hluti við mann sem maður segir við sjálfan sig,“ segir Hera og heldur áfram. „Við ætlum að syngja af okkur rassgatið – það er það sem við gerum best. Ég er í raun að gera það sem ég trúi að sé það sem ég eigi að gera fyrir mig. Það er svolítið það sem ég er að bjóða þjóðinni – valkostinn mig í þessu góða partíi.“