Við rákumst á algjörlega dásamlega uppskrift hjá Maríu Gomez á paz.is og fengum góðfúslegt leyfi til að birta hana svo lesendur DV gætu notið hennar líka. Um er að ræða ekta íslenska bakaríssnúða og fáum við vatn í munninn bara við það að skoða myndirnar.
Uppskriftin er upprunalega úr tímariti eldri borgara og segir María uppskriftina fullkomna fyrir þá sem hafa flutt úr landi en sakna snúðanna góðu.
„Elsku Íslendingar búsettir erlendis, þessi uppskrift er fyrir ykkur, og svo alla hina sem bara elska snúða. Uppskriftin er mjög einföld og auðveld að gera en samt smá tímafrek, svo hafið nógan tíma þegar þið gerið hana.“
Snúðar – Hráefni:
700 g hveiti
1½ tsk. salt
4 tsk. þurrger
80 g sykur
4 dl volgt vatn
1 dl jurtaolía
Fylling – Hráefni:
3 msk. sykur
3 msk. púðursykur
1 msk. kanill
Aðferð:
Byrjið á að setja öll þurrefnin saman í skál og hrærið létt saman með króknum á hrærivélinni. Bætið því næst við vökvanum og hnoðið hægt í hrærivélinni fyrst og aukið svo hraðan smátt og smátt. Það þarf að hnoða deigið í heilar 5 mínútur og takið því tímann. Næst er svo að láta deigið hefast á volgum stað undir röku stykki í 30 mínútur.
Þegar deigið er búið að hefast er hveiti sáldrað á borðið, og deigið tekið úr skálinni. Hrærið næst saman sykrinum og kanilnum í fyllinguna., og fletjið svo deigið út í ferning. Stráið svo fyllingunni jafnt yfir ferningin og rúllið upp í lengju. Skerið svo lengjuna í hæfilega bita og raðið á bökunarplötu með smjörpappa. Hitið svo ofninn á 50°C og spreyið hann að innan með volgu vatni. Spreyið svo volgu vatni á snúðana og setjið í ofninn í 45 mínútur. Gott er að spreyja vatni á þá 1-2 sinnum meðan þeir eru í ofninum, en í þessu ferli eru þeir ekki að bakast heldur eru þeir í volgum ofninum til að hefast.
Þegar 45 mínútur eru liðnar eru snúðarnir teknir út og ofninn hitaður upp í 210°C blæstri. Bakist svo í 10-12 mínútur. Látið kólna á grind meðan glassúr er gerður en um leið og þeir komu úr ofninum penslaði ég þá með sykurvatni svo þeir yrðu alveg eins og í bakaríi. Sykurvatnið gerði ég úr 3 msk. af sykri og 4 msk. af sjóðandi heitu vatni. Mikilvægt er að pensla þá um leið og þeir koma úr ofninum, sjóðandi heita.
Hráefni:
4 dl flórsykur
3 msk. kakó
100 g brætt dökkt súkkulaði
½ tsk. salt
1–2 msk. kaffi
1–2 msk. mjólk
½ tsk. vanilludropar
Aðferð:
Bræðið 100 grömm af dökku súkkulaði yfir vatnsbaði og setjið til hliðar. Næst er flórsykur settur í skál og restin af þurrefnunum. Hrærið þessu saman létt með skeið og setjið svo vökvann útí. Ef glassúrin er of þykkur setjið þá bara dropa og dropa af vatni þar til hann verður hæfilega þykkur. Þegar snúðarnir eru búnir að kólna er glassúrinn settur á og voila alles klar til að borða. Þeir eru alveg geggjað góðir með kaldri mjólk með klaka útí.