Þegar kalt er í veðri er ofboðslega huggulegt að ylja sér í eldhúsinu og baka eitthvað stórkostlegt. Við mælum heilshugar með þessum Rolo-smákökum sem eru í senn einfaldar og gómsætar.
Hráefni:
225 g mjúkt smjör
1½ bolli ljós púðursykur
2 stór egg
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. salt
1 tsk. matarsódi
2¼ bolli hveiti
1½ bolli Rolo, saxað
¾ bolli súkkulaði, grófsaxað
Aðferð:
Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír á tvær ofnplötur. Setjið smjör og sykur í stóra skál og þeytið þar til blandan er létt og ljós. Bætið eggjunum og vanilludropum saman við og þeytið. Blandið síðan salti og matarsóda vel saman við. Blandið hveitinu varlega saman við og síðan Rolo og súkkulaði með sleif eða sleikju. Búið til kúlur úr deiginu og raðið á ofnplötur með nokkru bili á milli. Bakið í 10 til 12 mínútur og leyfið kökunum að kólna í 5 til 10 mínútur áður en þær eru bornar fram.